Sorphirða fellur niður vikuna 1.-5. desember vegna breytinga. Frekari upplýsingar hér

Fara í efni

Bæjarráð

734. fundur
22. nóvember 2021 kl. 08:30 - 10:40
í fjarfundi
Nefndarmenn
Sigurður Ólafsson formaður
Pálína Margeirsdóttir varaformaður
Ragnar Sigurðsson aðalmaður
Rúnar Már Gunnarsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
Jón Björn Hákonarson bæjarstjóri
Gunnlaugur Sverrisson embættismaður
Snorri Styrkársson embættismaður
Fundargerð ritaði:
Gunnlaugur Sverrisson forstöðumaður stjórnsýslu
Dagskrá
1.
Félagslegt leiguhúsnæði
Málsnúmer 2009012
Þann 16. nóvember 2021 vísaði félagsmálanefnd umræðu um félagslegt leiguhúsnæði til frekari umfjöllunar bæjarráðs. Félagsmálanefnd hefur farið yfir mat á þörf fyrir félagslegt leiguhúsnæði. Nefndin ítrekar mikilvægi þess að sveitarfélagið hafi aðgang að íbúðum til útleigu á félagslegum forsendum og tekur undir það mat að ekki sé skilyrði að íbúðirnar séu í eigu sveitarfélagsins ef aðgangur að íbúðum er tryggður. Málinu er vísað til bæjarráðs til frekari umfjöllunar. Bæjarráð samþykkir í ljósi niðurstöðu félagsmálanefndar að fela fjármálastjóra og bæjarstjóra að hefja viðræður við Leigufélagið Bríet um kaup á íbúðum í eigu sveitarfélagsins, með sama hætti og með sömu forsendum og voru í fyrri samningum sem gerðir hafa verið við Bríet.
2.
Leikskólar Fjarðabyggðar
Málsnúmer 2111127
Lagt fram minnisblað mannauðsstjóra og sviðstjóra fjölskyldusviðs um stöðu mála í leikskólum Fjarðabyggðar. Bæjarráð samþykkir tillögu í minnisblaði um að settur verði á laggirnar starfshópur. Hópurinn verði skipaður formanni bæjarráðs, sviðstjóra fjölskyldusviðs, fræðslustjóra, mannauðsstjóra og skólastjóra frá einum af leikskólum sveitarfélagsins.
3.
Kirkjumelur Norðfjarðarsveit - eignarhald
Málsnúmer 1701071
Gengið hefur verið frá lóðamálum Kirkjumels í Norðfjarðarsveit. Bæjarráð felur fjármálastjóra að auglýsa til sölu fasteign bæjarins að Kirkjumel.
4.
Tillaga að starfsleyfi Fiskeldis Austfjarða hf. Stöðvarfirði - 7.000 tonna sjókvíaeldi á ófrjóum laxi
Málsnúmer 2111116
Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að starfsleyfi fyrir Fiskeldi Austfjarða hf. í Stöðvarfirði. Um er að ræða sjókvíaeldi á ófrjóum laxi með allt að 7.000 tonna lífmassa á hverjum tíma. Athugasemdir við starfsleyfistillöguna skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 25. nóvember 2021. Atvinnu- og þróunarstjóri fór yfir feril málsins. Bæjarráð Fjarðabyggðar ítrekar nauðsyn þess að horft verði til hljóð- og ljósmengunar vegna sjókvíaeldis í Stöðvarfirði, vegna stærðar fjarðarins og legu þéttbýlis í honum. Bæjarráð vill jafnframt hvetja Fiskeldi Austfjarða ehf. til að halda íbúafund og kynna áform sín. Bæjarráð vill um leið vekja athygli á fyrri umsögnum Fjarðabyggðar um að sveitarfélögum þar sem fiskeldisfyrirtæki starfa, skuli ekki vera treyst fyrir skipulagsmálum fjarða sinna og að skilgreindir tekjustofnar af auðlindinni fari til þeirra sveitarfélaga frekar en til ríkissjóðs.
5.
Tillaga að rekstrarleyfi Fiskeldis Austfjarða til fiskeldis í Stöðvarfirði
Málsnúmer 2111117
Matvælastofnun hefur unnið tillögu að rekstrarleyfi fyrir Fiskeldi Austfjarða hf. til sjókvíaeldis á ófrjóum laxi í Stöðvarfirði. Tillagan er byggð á matsskýrslu frá 2020 um eldi á 7.000 tonnum af laxi í Stöðvarfirði. Athugasemdir við tillöguna skulu vera skriflegar og sendar Matvælastofnun á mast@mast.is. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 24. nóvember 2021. Atvinnu- og þróunarstjóri fór yfir feril málsins. Bæjarráð Fjarðabyggðar ítrekar nauðsyn þess að horft verði til hljóð- og ljósmengunar vegna sjókvíaeldis í Stöðvarfirði, vegna stærðar fjarðarins og legu þéttbýlis í honum. Bæjarráð vill jafnframt hvetja Fiskeldi Austfjarða ehf. til að halda íbúafund og kynna áform sín.
Bæjarráð vill um leið vekja athygli á fyrri umsögnum Fjarðabyggðar um að sveitarfélögum þar sem fiskeldisfyrirtæki starfa, skuli ekki vera treyst fyrir skipulagsmálum fjarða sinna og að skilgreindir tekjustofnar af auðlindinni fari til þeirra sveitarfélaga frekar en til ríkissjóðs.
6.
Umsókn um lán frá Ofanflóðasjóði 2021
Málsnúmer 2104092
Lögð fram umsókn um lán til Ofanflóðasjóðs vegna áfallins kostnaðar við framkvæmdir janúar - október árið 2021 að upphæð 86,6 milljónir króna. Lántakan rúmast innan áætlaðrar lántöku Fjarðabyggðar á árinu 2021 samkvæmt fjárhagsáætlun ársins 2021 með viðauka. Bæjarráð samþykkir umsókn.
7.
Þorrablót Reyðfirðinga 2022 - beiðni um afnot af íþróttahúsi
Málsnúmer 2111102
Beiðni Þorrablótsnefndar Reyðarfjarðar um afnot af íþróttahúsinu á Reyðarfirði undir þorrablót í janúar 2022. Bæjarráð samþykkir afnot með sama hætti og undanfarin ár.
8.
Erindisbréf starfshóps um framtíðarsýn Stríðsárasafns
Málsnúmer 2111093
Framlögð drög erindisbréfs fyrir starfshóp sem móti framtíðarsýn fyrir Stríðsárasafnið á Reyðarfirði í tengslum við kaup Fjarðabyggðar á munum Hinriks Steinssonar. Bæjarráð skipar sem fulltrúa í starfshópinn Ragnar Sigurðsson og Magna Þór Harðarson formann menningar- og nýsköpunarnefndar, sem jafnframt verður formaður hópsins. Jafnframt skipa starfshópinn forstöðumaður safnastofnunar, sem verður starfsmaður hópsins, atvinnu- og þróunarstjóri og sviðsstjóri framkvæmdasviðs. Vísað til kynningar í menningar- og nýsköpunarnefnd.
9.
735 Leirubakki 4 og Leirukrókur 4 - Umsókn um sameiningu og stækkun lóða
Málsnúmer 2111037
Lögð fram umsókn Eskju hf. dagsett 4. nóvember 2021, þar sem óskað er eftir að lóðir fyrirtækisins að Leirubakka 4 og Leirukrók 4 verði sameinaðar í eina lóð, Leirubakka 4 ásamt stækkun lóðarinnar til suðurs sbr. tillögu að breytingu á deiliskipulagi. Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir fyrir sitt leyti sameiningu lóðanna og stækkun þegar breytt deiliskipulag hefur verið staðfest. Endanlegri afgreiðslu vegna stækkunar lóðarinnar er vísað til bæjarráðs. Bæjarráð samþykkir úthlutun lóðarinnar.
10.
Þátttaka í styrkumsókn með Veðurstofu Íslands
Málsnúmer 2111124
Lögð fram beiðni Veðurstofu Íslands um þátttöku Fjarðabyggðar í styrkumsókn. Þátttaka Fjarðabyggðar felur ekki í sér fjárhagslega skuldbindingu af hálfu sveitarfélagsins. Bæjarráð samþykkir þátttöku.
11.
Stjórnkerfisnefnd
Málsnúmer 2011203
Bæjarráð samþykkir að stjórnkerfisnefnd taki til starfa.
12.
Félagsmálanefnd - 148
Málsnúmer 2111007F
Fundargerð félagsmálanefndar frá 16.nóvember, lögð fram til afgreiðslu.