Fara í efni
15.01.2026 Skólar

Breytingar á gjaldskrá leikskóla

Deildu

Nokkrar breytingar voru gerðar á gjaldskrá leikskóla sem tóku gildi um áramótin. Almennt vistunargjald að 30 klst. vistun á viku og gjald fyrir morgun og síðdegishressingu hækkar um 3,9 %. Gjald fyrir skráningardaga og viðbótarvistun fyrir kl. 8:00 og eftir kl. 16:00 helst óbreytt. 

Almennt vistunargjald á mánuði fyrir vistun umfram 30 klst. lækkar og verður 10.000 kr. á mánuði fyrir viðbótar klukkustund á dag umfram 30 klst. á viku. Afslættir vegna tekjuviðmiða eru óbreyttir.

Verulegar breytingar voru gerðar á gjaldskrá og leikskólareglum sem tóku gildi 1. mars 2025.  Skammt er um liðið og því erfitt að meta hvort að markmið breytinganna hafi náðst og hver áhrif þeirra verða til lengri tíma.

Markmið breytinganna eru m.a. 

  • að draga úr lokunum vegna fáliðunar
  • stytta meðal vistunartíma barna
  • auka sveigjanleika í reglulegum vistunartíma
  • auka sveigjanleika í kringum frídaga
  • að mæta styttingu vinnuvikunnar

Breytingarnar hafa haft jákvæð áhrif á leikskólastarfið. Þannig hefur dögum sem þurft hefur að loka vegna manneklu fækkað eftir breytinguna. Einungis einu sinni hefur þurft að loka deild á haustönn, í upphafi árs og á haustönn 2024 þurfti hinsvegar ítrekað að loka. Þannig var lokað vegna manneklu í samtals 54 tíma á haustönn 2024 en aðeins átta tíma á sama tímabili 2025. 

Einnig er meðalvistunartími barna mun styttri en áður var.

Áfram verður fylgst með áhrifum af breytingum á gjaldskrá og stefnt að því að leggja könnun fyrir foreldra í tengslum við skólapúlsinn snemma á þessu ári.

Börn í Fjarðabyggð fá leikskólapláss við 12 mánaða aldur og nú er hvergi biðlisti eftir plássi.  Til þess að börn geti hafið leikskólagöngu við eins árs aldur er mjög mikilvægt að sótt sé um leikskólapláss tímanlega.  Sækja má um vist í leikskóla um leið og kennitala barns hefur verið skráð. 

Nýja gjaldskrá má sjá hér og einnig liggja fyrir uppfærðar reglur um leikskólaþjónustu í Fjarðabyggð. Við þá uppfærslu var leitast við að skýra orðalag varðandi ýmis álitamál sem upp hafa komið við vinnu samkvæmt reglunum og samræma orðalag gjaldskrár og reglna.