Fara í efni
19.09.2016 Fréttir

Fíflalús nemur land

Deildu

Borið hefur á því frá árinu 2014 að íbúar á Austurlandi hafi haft samband við starfsfólk Náttúrustofu Austurlands og óskað eftir greiningu á pöddum sem sjást hafa skríða um í fylkingum upp húsveggi eða skjólgarða.

Náttúrustofunni hefur borist pöddur frá Breiðdalsvík, Stöðvarfirði, Egilsstöðum og Neskaupstað. Bendir flest til að um fíflalús sé að ræða, sem er nýlegur landnemi hér á landi. Málið er í skoðun hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, sem fylgist grannt með útbreiðslu lúsarinnar.

Fíflalúsin er dökk á lit og er meira áberandi þegar líða tekur á sumarið. Þegar reynt er að sópa eða þurrka lýsnar burt springa þær gjarnan og skilja eftir sig rauðar klessur sem líkist blóði. Svo er þó ekki.

Lúsin lifir á túnfíflum og hefur fundist í húsagörðum og í skógrækt að Mógilsá í Kollafirði. Hún heldur sig einkum á neðra borði laufblaðanna og við blaðgrunn. Henni fjölgar gríðarlega síðsumars og leitar þá í auknum mæli upp úr blaðrótinni.

Nánari upplýsingar á vef NÍ