Framkvæmdartími er áætlaður frá lokum júlí í ár til ársloka 2029. Umsjón verksins er í höndum Framkvæmdasýslu Ríkiseigna.
Fyrsti verkfundur framkvæmdanna var haldinn fimmtudaginn 18. júlí með verktaka verksins Héraðsverki, fulltrúum Fjarðabyggðar, Framkvæmdasýslu Ríkiseigna og Ofanflóðasjóðs.
Undirbúningur verktaka vegna verksins hefjast í dag, þriðjudaginn 23. júlí og tekur um tvær til fjórar vikur. Byrjað verður á því að koma búnaði og tækjum á staðinn ásamt því leggja aðkomu- og vinnuvegi á framkvæmdasvæðinu. Þá fer fram ástandsskoðun húsa í nærumhverfi.
Fyrstu áfangar verksins á árinu 2024 eru eftirfarandi:
- Undirbúningur efnisvinnslu, efni hreinsað af klöppum og sprengdar klappir. Vinna við afvötnun svæðisins og gerður nýr farvegur við mörk Fólkvangs.
- Ný brú við aðkomu að Fólkvangi. Vinna við uppsetningu á tveimur til fjórum keilum í efri keiluröð ofan Starmýrar.Vinna við efnisskipti undir þvergarði.
Sprengt verður á framkvæmdasvæði ofan byggðar í Nes- og Bakkagiljum og Drangagili. Tímasetningar sprenginga verða auglýstar sérstaklega síðar meir. Hljóðmerki verða gefin fyrir hverja sprengingu og sms skilaboð send á íbúa innan skilgreinds svæðis fyrir hvern dag sem sprengingar eru framkvæmdar.
Göngu- og hjólaleiðum í nálægð við framkvæmdasvæðið kann að verða lokað tímabundið meðan á framkvæmdum stendur.
Óskað er eftir góðu samstarfi við íbúa vegna framkvæmdanna og er sérstaklega óskað eftir að foreldrar fari yfir með börnum sínum hvað ber að varast í tengslum við framkvæmdirnar.
Frekari upplýsignar er hægt að nálgast inná skipulagsvefsjá