Helena Kristjánsdóttir úr Þrótti var valin Íþróttamanneskja Fjarðabyggðar 2025 við hátíðlega athöfn sem fór fram í Safnahúsinu í Neskaupstað laugardaginn 3. janúar síðastliðinn, að viðstöddu fjölmenni. Jafnframt hlutu hvatningarverðlaun 2025 þau Heiðmar Óli Pálmason úr Þrótti og Edda Maren Sonjudóttir úr KFA.

„Það er ómetanlegt að sjá ungt íþróttafólk leggja sig fram með þessu hugarfari, jákvæðni, seiglu og liðsheild. Þetta eru verðlaun sem segja mikið um manneskjuna, ekki bara árangurinn,“ segir Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri.
Tilnefningar til Íþróttamanneskju Fjarðabyggðar 2025
Tilnefnd til íþróttamanneskju Fjarðabyggðar 2025 voru:
- Nenni Þór Guðmundsson – KFA
- Rakel Lilja Sigurðardóttir – Valur
- Ásdís Fönn Jónsdóttir – Austri
- Embla Fönn Jónsdóttir – FHL
- Helena Kristjánsdóttir – Þróttur

Helena – lykilmanneskja í liðsheild og fyrirmynd fyrir yngri iðkendur
Um Helenu er meðal annars sagt að hún sé einn jákvæðasti og hjálpsamasti einstaklingur sem blakdeildin á. Hún sé ávallt tilbúin að taka þátt í verkefnum, vera deildinni innan handar og smiti jákvæðni sinni yfir á aðra.
Helena er mikilvægur leikmaður í meistaraflokksliði Þróttar Fjarðabyggðar í blaki í Unbroken-deildinni og jafnframt frábær fyrirmynd fyrir unga iðkendur, bæði innan sem utan vallar. Hún er sögð leggja ríka áherslu á liðsheild, standa með þeim sem eiga undir högg að sækja og passa að enginn sé útundan.
Árangur Helenu á árinu var einnig eftirtektarverður, en hún vann meðal annars:
- Gullverðlaun á Evrópumóti Smáþjóða U19 í strandblaki
- Bronsverðlaun á NEVZA með U19 landsliðinu

Hvatningarverðlaun 2025: Heiðmar Óli og Edda Maren
Hvatningarverðlaunin hlutu Heiðmar Óli Pálmason úr Þrótti og Edda Maren Sonjudóttir úr KFA.

Um Heiðmar Óla er sagt að hann hafi gríðarlegan áhuga á skíðaíþróttinni og hafi stundað hana frá barnsaldri. Hann taki virkan þátt í öllu sem tengist íþróttinni, verji miklum frítíma í æfingar og sé ákveðinn með sterkt keppnisskap sem skili árangri. Hann hafi einnig farið í æfingaferðir erlendis til að nýta snjóaðstæður og bæta sig.
Heiðmar Óli er jákvæður, leggur sig allan fram og styður vini sína í keppni. Hann leggur sig fram af miklum metnaði og er til fyrirmyndar í framkomu. Auk skíða stundar hann fleiri íþróttagreinar og er sagður góður félagi sem hvetur aðra og sýnir kurteisi.
Um Eddu Maren er sagt að hún hafi mikinn áhuga á knattspyrnu og stefni á að ná langt sem knattspyrnukona. Hún æfir nú með meistaraflokki kvenna og hefur leikið í tveimur leikjum í Bestu deild kvenna. Edda Maren er sögð róleg, yfirveguð og kurteis, fljót að tileinka sér það sem tengist leiknum og með mjög góðan leikskilning.
Hún er góður liðsfélagi, hjálpsöm og kemur vel fram við aðra, bæði í meistaraflokki og yngri flokkum. Hún er talin efni í sterkan leiðtoga innan liðsins og fyrirmynd fyrir aðra iðkendur.
„Þessi verðlaun eru ekki bara klapp á bakið, þau eru hvatning til að halda áfram og minna okkur líka á hvað íþróttastarf skiptir miklu fyrir samfélagið. Við erum stolt af þessu öfluga íþróttafólki og öllum þeim sem standa á bak við starfið,“ segir Ragnar Sigurðsson, formaður fjölskyldunefndar.
Aðrar tilnefningar til hvatningarverðlauna 2025
Auk verðlaunahafa voru einnig tilnefnd:
- Vigdís Huld Vilbergsdóttir – Leiknir
- Andri Dagur Sigurjónsson – Píluklúbbur Austurlands
- Emma Ósk Kristjánsdóttir – Hestamannafélagið Blær
- Rúnar Sigurjónsson – Valur
- Svava Valrós Ásmundsdóttir – Valur
- Edda Maren Sonjudóttir – KFA
- Steingrímur Þorri Ragnarsson – KFA
- Hafþór Gestur Sverrisson – Brettafélag Fjarðabyggðar / Leiknir
- Nanna Silvía Andrésdóttir – Austri
- Heiðmar Óli Pálmason – Þróttur
- Kolfinna Hafþórsdóttir – Þróttur

