Fara í efni
12.05.2023 Fréttir

Opinber heimsókn forset Íslands til Fjarðabyggðar dagana 8. maí til 10 maí

Deildu

Heimsóknin hófst mánudaginn 8. maí og kom forseti víða við á fyrsta degi sínum í opinberri heimsókn sinni til Fjarðabyggðar.

Heimsóknin hófst formlega á áningarstaðnum efst við Grænafell þar sem forseti bæjarstjórnar, bæjarstjóri og oddviti minnihlutans tóku á móti forsetanum. Var svo haldið á bæjarskrifstofurnar í morgunkaffi ásamt starfsmönnum.

Þaðan var svo haldið í Neskaupstað og komið við í skrifstofuklasanum Múlinn samvinnuhús, leikskólanum Eyravellir og farið var á flóðasvæðið og ummerki þess skoðuð ásamt því að farið var upp að flóðvarnagörðunum. Farið var svo um borð í skip Síldarvinnslunnar og umdæmissjúkrahúsið í Neskaupstað var heimsótt. Var svo haldið niðrá höfn og farið um borð í flóabátinn Anný siglt til Brekkuþorps í Mjóafirði þar sem íbúar tóku á móti forsetanum og boðið var til kaffisamsætis. Deginum lauk svo með hátíðarkvöldverði í boði bæjarstjórnar í Skrúð, á Fáskrúðsfirði.

Á þriðjudag var haldið til Breiðdalsvíkur og á Stöðvarfjörð. Var farið í heimsókn í Beljanda, dagvist aldraðra og leikskólann þar sem börnin sungu fyrir forsetann. Á Stöðvarfirði var komið við í grunnskólanum, Sköpunarmiðstöðinni og svo var hádegisverður í Safnaðarheimilinu með eldri borgurum á Stöðvarfirði.

Frá Stöðvarfirði var svo haldið í Skólamiðstöðina á Fáskrúðsfirði. Var þaðan haldið í Loðnuvinnsluna og hjúkrunarheimilið Uppsali. Að lokum var svo haldin fjölskylduhátíð í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði, þar ávarpaði forseti ásamt Jónu Árný bæjarstjóra gesti og skipts var á gjöfum.

Á miðvikudeginum var grunn- og leikskólinn á Reyðarfirði heimsóttir, Launafl og Alcoa, þar sem hádegisverður var snæddur með starfsmönnum Alcoa. Eftir hádegisverðin var haldið í leikskólann Dalborg á Eskifirði, hjúkrunarheimilið, Egersund og svo Laxar fiskeldi.

Heimsókninni lauk svo með skoðunarferð um nýja íþróttarhúsið á Reyðarfirði, þar sem forsetinn fékk að líta inn á glímuæfingu.

Að lokum var komið við á sauðfjárbúinu Sléttu, þar sem sauðburður stendur yfir. Þar fékk forsetinn að gefa nýbornu lambi nafn. Fékk gimbrin nafnið Eliza.

Myndir: Jessica Auer/Strond Studio