Fara í efni
08.01.2026

Sameiginlegur safnamiði á öll söfn í Fjarðabyggð

Deildu

Um áramótin tók í gildi ný gjaldskrá safna Fjarðabyggðar en með henni er gjalskrá samræmd milli safna sveitarfélagsins og sú nýlunda tekin upp að miði að einu safni gildi á þau öll. Áður, þurftu gestir að greiða sig sérstaklega inn á hvert safn. Jafnframt hefur verið tekið upp samræmt aðgangsgjald fyrir fullorðna, 2.400 krónur, í stað þess að mismunandi verð gildi milli safna. Þá fá námsmenn og börn gjaldfrjálsan aðgang að söfnunum. Söfnin eru opin á sumri, utan þess tíma er hægt að bóka heimsókn fyrir stærri og minni hópa. 

Breytingarnar eru gerðar að fyrirmynd sambærilegra safna um land allt og miða að því að auka aðgengi íbúa að söfnum sveitarfélagsins og gera Fjarðabyggð að samkeppnishæfari áfangastað ferðamanna. Breytingarnar tóku gildi nú um áramótin og ná til allra fjögurra safna sveitarfélagsins, þ.e. Safnahússins á Norðfirði, Sjóminjasafns Austurlands (Eskifirði), Stríðsárasafnsins á Reyðarfirði og Franska safnsins á Fáskrúðsfirði. 

Franska Safnið á Fáskrúðsfirði

Þessar breytingar lækka aðgangseyri verulega, sem dæmi, fyrir fjögurra manna fjölskyldu (tvo foreldra og tvö börn) getur kostnaður við að heimsækja öll fjögur söfnin nú verið allt að 80% lægri en áður. 

Þórhildur Tinna Sigurðardóttir, forstöðumaður Menningarstofu, segir eftirfarandi um breytinguna:

„Við erum afar spennt fyrir þessum breytingum. Menningarstofa tók nýlega við rekstri safnanna í Fjarðabyggð, sem skapar tækifæri til aukinnar samvinnu við aðra menningarstarfsemi. Sameiginlegur safnamiði er fyrsta skrefið í að efla söfnin okkar, en jafnframt er unnið að dýpri samhæfingu til að nýta starfsfólk og aðföng betur fyrir gesti þeirra. Aðrir þættir verkefnisins fela m.a. í sér uppbyggingu miðlægs varðveisluhúsnæðis á Eskifirði til að koma öllum safnkostinum undir eitt þak, endurnýjun sýninga og endurbygging Stríðsárasafnsins eftir óveðrið árið 2022. Stríðsárasafnið mun opna í þremur áföngum á næstu árum, opnun fyrsta áfanga nú í sumar. Framtíð safna og menningar í Fjarðabyggð er björt." 

Skissa af ytra útliti Stríðsárasafnisins.

Söfnin eru kjörinn vettvangur fyrir menningar- og listviðburði og hefur verið lögð aukin áhersla á það síðasta árið að styðja við almenning sem leitar til okkar með hverskonar viðburði. 

Safnahúsið á Norðfirði

Við erum því orðin verulega spennt fyrir sumaropnuninni og vonumst til þess að fá sem flesta í heimsókn á söfnin. Þangað til er alltaf hægt að senda okkur póst og bóka heimsókn. Skólahópar fá svo að sjálfsögðu gjaldfrjálsan aðgang." Sagði Þórhildur Tinna að lokum. 

Fyrir bókanir má hafa samband á sofn@fjardabyggd.is eða við verkefnastjóra safna í síma 4709063.