Fjarðabyggð tók þátt í Skákdeginum í ár með því að vígja tvö ný taflsett, annað í sundlaug Neskaupstaðar og hitt í sundlaug Eskifjarðar. Taflsettin eru sérútbúin fljótandi töfl sem henta afar vel í heita potta, en slík taflsett hafa notið mikilla vinsælda undanfarin ár.
Taflsettin voru vígð í sundlaugunum á Eskifirði og í Neskaupstað.
Í Neskaupstað tefldu feðgarnir Einar Már Sigurðarson, skólastjóri Nesskóla, bæjarfulltrúi, fyrrum þingmaðurinn og fyrrum formaður skáksambands Austurlands og sonur hans Sigurður Steinn, fyrstu skákina í pottinum.
Á Eskifirði tefldi fyrrum forstöðumaður sundlaugar Eskifjarðar og fyrrum Austurlandsmeistari í skák, Hákon Sófusson við Rúnar Bernburg fyrrum stjórnanda í skákfélagi Austurlands og margverðlaunaðan skáksérfræðing.
Íbúar eru hvattir til að kíkja í sund og grípa í eina skák, hvort sem er í pottinum eða á þurru landi. Það eina sem þarf að gera er að biðja starfsfólk sundlauganna um taflsettin.