Fara í efni
26.03.2021 Fréttir

Tilkynning frá aðgerðarstjórn á Austurlandi 26. mars

Deildu
Tíu COVID smitaðir áhafnarmeðlimir eru um borð í súrálsskipi sem liggur í Mjóeyrarhöfn á Reyðarfirði. Fylgst er mjög skipulega með líðan þeirra í samvinnu Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) og COVID-deildar Landspítala. Ekki hefur þurft að flytja neinn þeirra frá borði og ástandið er stöðugt. Alls eru nítján í áhöfn skipsins. Aðrir skipverjar, níu talsins, hafa í tvígang verið skimaðir eftir komu skipsins til Reyðarfjarðar, fyrst á komudegi 20. mars og svo aftur 22. mars. Niðurstöður voru í báðum tilvikum neikvæðar. Þeir munu skimaðir að nýju á mánudag 29. mars, en enginn þeirra sýnir einkenni veikinda.
Aðgerðastjórn vekur athygli á að mörg smit hafa komið upp á landinu nýverið og sóttvarnir hertar vegna þess. Þá eru smit nú býsna nærri okkur í fjórðungnum þó ekki sé talin hætta á dreifingu þeirra. Staðan sýnir þó glöggt mikilvægi þess að við förum ofurvarlega, ekki síst nú í aðdraganda páska með þeim áskorunum sem þeim fylgja. Gætum því að öllum persónubundnum vörnum sem áréttaðar hafa verið svo oft, tveggja metra reglu, grímunotkun, handþvott og sprittnotkun.
Förum frísk inn í helgina, dymbilvikuna og páskana. Með samstilltu átaki komum við jafnfrísk til baka.