Lokið er raðgreiningu sýna sem tekin voru á laugardag. Um brasilískt afbrigði veirunnar er að ræða.
Við komu skipsins á laugardag fór hafnsögumaður um borð sem og læknir, hjúkrunarfræðingur og lögreglumaður. Allir fylgdu þeir ítrustu sóttvörnum í samræmi við leiðbeiningar og búnir hlífðarfatnaði. Hafnsögumaður fór í sóttkví í kjölfarið þar sem hann hefur ekki fengið bólusetningu vegna COVID-19. Aðrir er um borð fóru eru bólusettir og því ekki í sóttkví.
Læknir og hjúkrunarfræðingur munu í dag fara að nýju um borð til að meta ástand og líðan skipverja og veita aðhlynningu eftir þörfum.
Fréttir hafa borist af því að upplýsingar um veikindi skipverja um borð hafi ekki borist yfirvöldum í samræmi við venju og verklag. Sá þáttur er nú til skoðunar hjá Landhelgisgæslu og Samgöngustofu.