Dagana 13.–14. janúar var haldið tveggja daga námskeið í Fræðslumolanum Austurbrú á Reyðarfirði, þar sem fjallað var um kennsluaðferðina Samræðufélagar (Talking Partners@Primary). Námskeiðið var ætlað sérkennurum og ÍSAT-kennurum sem starfa með fjöltyngda nemendur á aldrinum 5 - 12 ára. Þátttakendur voru 24, úr öllum grunnskólum á Austurlandi og einum leikskóla.
Á námskeiðinu var lögð áhersla á mikilvægi markvissrar samræðu í kennslu og hvernig hægt er að efla orðaforða, tjáningu og skilning nemenda á töluðu máli. Þátttakendur fengu innsýn í uppbyggingu kennslunnar, skipulag námslotna og hvernig aðferðin byggir á virkri þátttöku nemenda í litlum hópum. Farið var yfir fræðilegan grunn aðferðarinnar, meðal annars með vísan til kenninga Vygotskys um nám og þroska.

Kennslan skiptist í fræðilegar umræður og verklegar lotur þar sem þátttakendur unnu með verkefni úr námsefninu og skoðuðu hvernig hægt er að aðlaga þau að mismunandi aldri og þörfum nemenda. Jafnframt voru tekin dæmi um árangur og áhrif aðferðarinnar.
Kennari á námskeiðinu var Sigrún Helga Snæbjörnsdóttir, sérfræðingur hjá Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, sem hefur víðtæka reynslu af kennslu, sérkennslu og innleiðingu ÍSAT-kennslu. Hún leiddi námskeiðið með áherslu á faglegt samtal, sýnikennslu og virka þátttöku þeirra sem þar sátu.
Í kjölfar staðnámskeiðsins hefja þátttakendur 10 vikna þjálfun í eigin starfi, með skipulagðri eftirfylgni Sigrúnar Helgu. Eftirfylgnin felst í þremur Teams-fundum, þar sem þátttakendur fá stuðning, ráðgjöf og tækifæri til að ræða reynslu sína, áskoranir og næstu skref. Að auki verður boðið upp á handleiðslu og áhorf í kennslustundum eftir þörfum.
Námskeiðið var haldið af sveitarfélögunum á Austurlandi í samvinnu við Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, Miðju máls og læsis og Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri. Námskeiðið er liður í að efla faglega kennslu og stuðning við fjöltyngda nemendur í skólum Fjarðabyggðar.
