Fara í efni
Tilkynningar

Bæjarráð: Makrílsamningur setur störf í Fjarðabyggð í hættu

Deildu

Bókun bæjarráðs:

Bæjarráð Fjarðabyggðar lýsir yfir áhyggjum af nýundirrituðum makrílsamningi Íslands við Noreg, Bretland og Færeyjar. Samningurinn mun, eins og hann birtist bæjarráði, að öllum líkindum skerða samkeppnisstöðu íslensks sjávarútvegs, draga úr fjárfestingum, veikja tekjustofna sveitarfélagsins og leiða til fækkunar starfa í Fjarðabyggð. Það er sérstakt áhyggjuefni að samið hafi verið um að allt að tveir þriðju hlutar makríls sem veiddur er í norskri lögsögu fari á uppboðsmarkað í Noregi, sem getur numið allt að 60% af heildarafla. Þessi ráðstöfun dregur úr aðgengi íslenskra fyrirtækja að hráefni, veikir innlenda vinnslu og flytur verðmætasköpun úr landi. Samningurinn mun þannig bitna með beinum hætti á þjónustufyrirtækjum í Fjarðabyggð sem hafa fjárfest í innviðum og sérhæfðri starfsemi tengdri sjávarútvegi, en hafa hvorki möguleika á að flytja starfsemi sína né að aðlaga sig hratt að svo róttækum breytingum. Afleiðingin er aukin hætta á uppsögnum og fækkun starfa í sveitarfélaginu. Jafnframt mun samningurinn draga úr umsvifum fiskvinnslu og hafnarstarfsemi og skerða tekjur hafnarsjóðs. Þetta kemur ofan í boðaðan samdrátt í sjávarútvegi sem og auknar álögur á greinina og eykur þannig enn á óvissu sem leitt getur til aukins atvinnuleysis í sjávarbyggðum og ennfrekari tekjusamdrátt í þeim byggðarlögum.