mobile navigation trigger mobile search trigger
09.03.2016

Áhersla á aukin umhverfisgæði

Á fjölmennum íbúafundi á Eskifirði í gærkvöldi voru kynntar fyrirhugaðar framkvæmdir vegna varnavirkja í Ljósá en einnig var fjallað um málefni Hitaveitu Eskifjarðar.

Áhersla á aukin umhverfisgæði
Páll Björgvin Guðmundsson, stýrði fundinum í gærkvöldi. Hér má sjá bæjarstjóra við upphaf fundarins.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdirnar verði boðnar út nú í vor. Leitast verður við að nýta efni sem er í og við farveg árinnar, en uppstaðan í varnarvirkjum eru hlaðnir veggir og steyptir leiðarveggir.

Lega og gróður meðfram árfarveginum ásamt miklum bratta gera að verkum, að framkvæmdasvæði er verulega þröngt og munu verktakar athafna sig að stórum hluta í sjálfum árfarveginum. Þá verður nokkuð umhverfisrask á framkvæmdatímanum og verður m.a. lögð hjáleið um lóð gömlu rafveitunnar vegna brúargerðar yfir Strandgötu. Áætluð verklok vegna brúargerðar eru í haust.

Á fundinum voru einnig kynntar tillögur Landmótunar að mótvægisaðgerðum vegna framkvæmdanna. Þá er einnig verið að skoða hvernig verja megi minjar við gömlu rafstöðina. Kom fram í máli Þórhildar Þórhallsdóttir, landslagsarkitekts hjá Landmótun, að rík áhersla sé lögð á að ná fram auknum umhverfisgæðum þar sem aðstæður leyfa.

Auk Þórhildar kynntu Hafsteinn Pálsson, verkfræðingur hjá Umhverfis- og auðlindaráðuneyti og Hugrún Hjálmarsdóttir, verkfræðingur hjá Eflu, fyrirhugaðar ofanflóðavarnir.

Að kynningu lokinni afhenti fulltrúi íbúa skriflegar ábendingar, sem ráðuneytið mun vinna úr í samráði við hönnuði og sveitarfélagið. Gögn vegna framkvæmda við Ljósa verða aðgengileg hér á vef sveitarfélagsins undir Ofanflóðavarnir innan skamms.

Þá fjallaði Snorri Styrkársson, fjármálastjóri Fjarðabyggðar um fjármál hitaveitunnar.

Frétta og viðburðayfirlit