mobile navigation trigger mobile search trigger
05.08.2015

Fagnaðarlátum ætlaði aldrei að linna

Neistaflug er fjölskylduhátíð í raun, sem gamandúóið Felix Bergsson og Gunnar Helgason, segjast ekki vilja missa af. Fagnaðarlátum ætlaði ekki að linna þegar Gunni birtist óvænt á hátíðinni, sem fram fór í Neskaupstað um síðustu helgi.

Fagnaðarlátum ætlaði aldrei að linna
Gunnar Helgason vildi ekki láta veikindi aftra sér og kom á Neistaflug með stæl í sjúkrabíl, þar sem hann söng nokkur lög. Hátíðin fór fram í Neskaupstað um síðustu helgi.

Það stefndi í heldur þungan róður hjá Felixi Bergssyni, þegar félagi hans lagðist í rauðkyrningssótt skömmu áður en þeir áttu að skemmta á Neistaflugi sl. helgi. Gunni varð því eftir í bænum og Felix stóð einn vaktina á útisviðinu í miðbæ Neskaupstaðar.

Gunni og Felix hafa undanfarin 16 ár verið ómissandi hluti af fjölskylduskemmtuninni, bæði á laugardegi og sunnudegi, og eflaust hafa vonbrigðin verið talsverð þegar Felix greindi frá óvæntum forföllum félaga síns.

Felix segir skemmtilega frá því á fasbókarsíðu sinni, að aulahrollur hafi farið um marga þegar hann á síðari degi skemmtunarinnar bað viðstadda um að hjálpa sér við að kalla Gunna fram. Það vissu jú allir að hann lægi veikur heima hjá sér, svo hvað var Felix að kalla þetta á hann?

Að vonum, ætlaði fagnaðarlátum því ekki að linna, þegar Gunni mætti, öllum að óvörum, á staðinn í sjúkrabíl, rétt nægilega hress til að syngja nokkur lög.

Gunnar hafði þá drifið til Neskaupstaðar í von um að hann myndi hressast, en þegar það gekk ekki eftir voru góð ráð dýr. Úr varð að hafa samband við Slökkvilið Fjarðabyggðar, sem lagði fúslega til hjálparhönd.

Í viðtali á Austurfrétt segir Felix að þeim félögum þyki Neistaflug ómissandi um verslunarmannahelgina. Um raunverulega fjölskylduhátíð sé að ræða þar sem mikil virðing sé borin fyrir börnum og hlut þeirra í hátíðarhaldinu. Gunni lét því ekki veikindin aftra sér frá því að taka þátt, jafnvel þó að einungis um stutta innkomu yrði að.

Frétta og viðburðayfirlit