mobile navigation trigger mobile search trigger
06.09.2017

Anna Hallgrímsdóttir 100 ára

Anna Hallgrímsdóttir frá Helgustöðum í Helgustaðahrepp varð 100 ára þann 7. ágúst sl. Í tilefni af þessum tímamótum heimsóttu Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri og Helga Elísabet Beck Guðlaugsdóttir félagsmálastjóri Önnu á heimili hennar á Hulduhlíð á Eskifirði á dögunum.

Anna Hallgrímsdóttir 100 ára
Anna Hallgrímsdóttir með þeim Helgu og Páli Björgvin

Anna er fædd á Helgustöðum í Helgustaðahrepp árið 1917 en flutti til Eskifjarðar þegar hún var á sjötta aldursári árið 1923 þar sem hún hefur búið síðan. Anna eignaðist þrjú börn með manni sínum Einari Kristjánssyni og í dag eru afkomendur þeirra orðnir yfir fimmtíu talsins.

Anna var hin hressasta þegar Páll Björgvin og Helga Elísabet litu við hjá henni síðast liðinn föstudag. Anna man tímana tvenna og fylgist vel með því sem er að gerast í samfélaginu í Fjarðabyggð og því höfðu þau um margt að ræða. Anna rifjaði m.a. upp slys sem varð í Helgustaðanámu árið 1923 þegar grjóthrun varð manni að bana. Anna hafði þá þann starfa að færa vinnumönnum í námunni mjólk og brauð. Hún rifjaði auk þess upp dansiböll á Eskifirði en hún sagðist hafa haft gaman af dansi og sótt dansnámskeið hjá Rigmor Hansen sem haldin voru reglulega á Eskifirði. Auk þess var rætt um málefni heilsugæslunar í Fjarðabyggð og framfarir í fiskvinnslu.

Í tilefni afmælisins færðu Páll og Helga Elísabet Önnu kveðjur frá bæjarstjórn Fjarðabyggðar og einnig blómvönd, geisladiskin Austfirskir Staksteinar og handunna Lóu úr leir eftir Rósu Valtingojer að gjöf. Þótti Lóa við hæfi enda glaðvær og kraftmikill fugl sem rímar einstaklega vel við persónuleika Önnu Hallgrímsdóttur.

Fleiri myndir:
Anna Hallgrímsdóttir 100 ára

Frétta og viðburðayfirlit