mobile navigation trigger mobile search trigger
26.02.2019

Aurflóð í Mjóafirði

Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur falið sviðstjóra framkvæmdasviðs sveitarfélagsins að hlutast til um hreinsun árfarvegs Borgeyrarár í Mjóafirði, sem hljóp í krapaflóði um liðna helgi, til að varna því að ekki hljótist frekari skemmdir og til að verja mannvirki. Framkvæmdastjóra var einnig falið að leita samstarfs við Viðlagatryggingu og Vegagerðina vegna þessa.

Aurflóð í Mjóafirði

Um liðna helgi rigndi töluvert ofan í mikið snjófarg sem gerði það að verkum að ár og lækir víða í fjallshlíðum Fjarðabyggðar, ruddust upp úr farvegum sínum með tilheyrandi hættu. Slíkt gerðist í Borgeyrará í Mjóafirði þannig að mannvirkjum og íbúum stóð ógn af. Þar sem vegasamgöngur við Mjóafjörð eru einungis færar yfir sumartímann, verður erfitt að koma þangað stórvirkum tækjum sem þarf til að koma Borgaránni aftur í farveg sinn svo frekara tjón hljótist ekki af. Bæjarráð Fjarðabyggðar vill árétta enn einu sinni við samgönguyfirvöld og Alþingi hversu skert lífskjör íbúar Mjóafjarðar búa við vegna lélegra samgangna á 21.öldinni. Þó fáir íbúar búi í þessu hverfi Fjarðabyggðar er það áfram krafa sveitarfélagsins að til þess verði horft, að einangrun Mjóafjarðar verði rofin, þannig að þar geti fólk búið við sama grundvallaröryggi og aðrir íbúar landsins og um leið geti byggðin í Mjóafirði aftur elfst við slíkar breytingar.

 

Frétta og viðburðayfirlit