mobile navigation trigger mobile search trigger
07.07.2016

BLIND

BLIND tónleikarnir vöktu aldeilis lukku seinasta sumar og verður leikurinn endurtekinn nú í sumar. BLIND tónleikarnir eru einstakir að því leitinu til að gestir upplifa viðburðinn með bundið fyrir augun og Jón Hilmar, hugmyndasmiðurinn, hefur enn hvergi fundið sambærilega hugmynd þó víða hafi leitað. 

BLIND

BLIND tónleikarnir verða í hádeginu á miðvikudögum líkt og síðastliðin sumur í Tónlistarmiðstöð Austurlands. 

Tónleikarnir eru stuttir og hnitmiðaðir, 20 mínútna langir og förum við með tónleikagesti í ferðalag um ókunnar og framandi slóðir. Við blöndum saman tónlist, sögum, hljóðum og þögn en tónleikarnir eru hljóðblandaðir í surround svo að hljóð koma úr öllum áttum. Að tónleikum loknum standa eftir spurningar, hlýja og oft tár. 

Í hvert skipti ræður sá listamaður sem auglýstur er ferðinni. Hann getur tekið tónleikana á þann stað sem honum sýnist og möguleikarnir eru óendanlegir. Þar sem áhorfandinn sér ekki greinir hann bara hljóð, finnur lykt og loft hreyfast. Engir fordómar um að kaktus sé ekki hljóðfæri eða að það að strjúka borð sé ekki tónlist.

Fyrstu BLIND tónleikar sumarsins voru í gær, Lazer Life, magnþrungin og dramatísk raftónlist af bestu gerð. 

Blind tónleikar sumarsins eru kl. 12:00  í Tónlistamiðstöð Austurlands sem er staðsett á Eskifirði: 

13.júlí Hin bráðefnilega Anya Shaddock 

20.júlí - Prins Póló

27.júlí - Tónlistakonan Gréta Mjöll Samúelsdóttir 

BLIND tónleikarnir verða einnig á morgun, föstudag á Eistnaflugi í Kajak húsinu fyrir neðan Kirkju Norðfjarðar og á Frönskum dögum í Fáskrúðsfjarðarkirkju. 

Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á heimasíðu Jón Hilmars

Fleiri myndir:
BLIND

Frétta og viðburðayfirlit