mobile navigation trigger mobile search trigger
18.09.2020

Bókun bæjarráðs Fjarðabyggðar um að gerð brúar yfir Sléttuá verði flýtt.

Á fundi bæjarstjórnar Fjarðabyggðar fimmtudaginn 17. september samþykkti bæjarstjórn bókun þar sem skorað er á Samgöngu- og sveitastjórnarráðherra og Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis að flýta gerð brúar yfir Sléttuá í botni Reyðarfjarðar.

Bókun bæjarráðs Fjarðabyggðar um að gerð brúar yfir Sléttuá verði flýtt.

Bókun bæjarstjórnar hljómar svo:

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar skorar á Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis að flýta gerð nýrrar tvíbreiðrar brúar yfir Sléttuá í Reyðarfirði sem er á þjóðvegi eitt. Í kjölfar gerðar Fáskrúðsfjarðargangna átti að fara í endurgerð brúar yfir Sléttuá og vegtengingar frá henni til þéttbýlisins á Reyðarfirði en ekki enn eru þær áætlanir komnar lengra en á teikniborðið frá árinu 2006. Við slíkt er ekki hægt að una enda er núverandi brú yfir Sléttuá umferðarþyngsta einbreiða brúin á Austurlandi samkvæmt mælingum Vegagerðarinnar og ekki þarf frekari vitnanna við hvað varðar slysahættu því samhliða.

Því skorar bæjarstjórn Fjarðabyggðar á stjórnvöld að tryggja nú fjármagn á komandi ári til að hægt verði að ráðast í verkið innan fjárfestingarátaks stjórnvalda sem miðar að því að bæta umferðaröryggi með að fækka einbreiðum brúm á þjóðvegi eitt um landið. Um leið verði þá framkvæmdum við endurbætur á Suðurfjarðarvegi um Fáskrúðs- og Stöðvarfjörð flýtt í núverandi samgönguáætlun því ekki er minni þörf á endurbótum þess vegar eins og Fjarðabyggð hefur margoft bent á við samgönguyfirvöld og barist fyrir. Ekki síst við einbreiðar brýr sem þar eru í botni fjarðanna og þurfa að komast í forgang.

Frétta og viðburðayfirlit