mobile navigation trigger mobile search trigger
25.04.2016

Brunaæfingar hjá Slökkviliði Fjarðabyggðar

Æfingar standa yfir hjá Slökkviliði Fjarðabyggðar í yfirgefnu húsi sem bíður niðurrifs á Naustahvammi 54 í Neskaupstað. Æfingunum lýkur á því að húsið verður brennt niður.

Brunaæfingar hjá Slökkviliði Fjarðabyggðar
Myndin var tekin á æfingu slökkviliðsins í september 2015. (Ljósm. Slökkviðlið Fjarðabyggðar)

Húsið sem um ræðir er á hættusvæði vegna snjóflóða og hefur ekki verið í notkun í rúmt ár. Áður en slökkviliðið fékk húsið afhent, hafði björgunarsveitin Gerpir fengið þar leyfi til æfinga.

Æfingum slökkviliðsins lýkur á því að húsið verður brennt niður og er stefnt að íkveikju þriðjudaginn 26. eða miðvikudaginn 27. apríl.

Það er ekki oft sem tækifæri gefast til brunaæfinga og sem betur fer er sjaldgæft að slökkvilið þurfi að takast á við húsbruna, að sögn Guðmundar Helga Sigfússonar, slökkviliðsstjóra. Það er engu að síður mjög mikilvægt að slökkviliðsmenn geti kynnst þeim aðstæðum af eigin raun. Þá eru sjö starfsmenn hjá slökkviliðinu að ljúka námi fyrir atvinnuslökkviliðsmenn og er brunaæfingin liður í því námi.

Æfingar af þessum toga hafa óhjákvæmilega reyk- og lyktarmengun í för með sér og er vonast til, að sögn Guðmundar Helga, að nágrannar sýni mikilvægi aðgerðanna skilning. Haft hefur verið samband við þá sem eru í næsta nágrenni við húsið, en umfang óþægindinna veltur á vindátt og veðurskilyrðum.

Gert er ráð fyrir að brunaæfingin hefjist að morgni og standi fram eftir degi.

Frétta og viðburðayfirlit