mobile navigation trigger mobile search trigger
04.02.2016

Dagur leikskólans í Fjarðabyggð

Glatt veður á hjalla í leikskólum Fjarðabyggðar, föstudaginn 6. febrúar. Sá dagur er „nebblega“ Dagur leikskólans.

Dagur leikskólans í Fjarðabyggð
Frá Degi leikskólans á Sólvöllum Neskaupstað á síðasta ári.

Í Neskaupstað fara börnin á Sólvöllum um bæinn og hengja upp listaverk sem þau hafa unnið síðustu vikur. Myndlistarsýning í boði leikskólans verður í Nesbakka, Nesbæ, Samkaupum og Sundlaug Neskaupstaðar. Í Nesbakka verða listamyndir eftir börnin á Kattholti. Í Nesbæ eiga börnin á Saltkráku heiðurinn af myndunum sem þar verða til sýnis, Ólátagarður á verkin sem sett vera upp í Samkaup og í anddyri sundlaugarinnar verða sýnd verk eftir börnin á Sjónarhól og Sólbakka.

Á Eskifirði fara börnin í Dalborg einnig um bæinn og hengja upp listaverk sem þau hafa unnið síðustu vikur. Verkin verða til sýnis í anddyri sundlaugarinnar, á sýsluskrifstofunni, heilsugæslunni og í Hulduhlíð. 

Á Reyðarfirði teikna börnin á Furuholti sólarmyndir og fara síðan með þær í Molann þar sem þær verða hengdar upp. Öðlingar fara á hinn bóginn með rútu í Fjarðaál Alcoa og hengja þar upp stórt verk sem þau hafa gert um Pétur og úlfinn. Á meðan ætla yngri deildirnar á Lyngholti að koma saman og syngja í tilefni dagsins. Deginum lýkur svo á sólarkaffi með eldri borgurum í matsal skólans, sem hefst kl. 14:00.

Á Fáskrúðsfirði hafa börnin í Kærabæ verið að lita myndir af norðurljósunum sem hengd verða upp í fyrirtækjum bæjarkjarnans á Degi leikskólans. Að því búnu verður opið hús hjá leikskólanum og er eldri borgurum boðið ásamt öðrum bæjarbúum í heimsókn.

Í Stöðvarfjarðarskóla verður opið hús hjá leikskólanum kl. 10:00 til 11:30. Allir eru velkomnir og geta leikið sér - og einnig við börnin. Myndasýning rúllar frá ýmsum atburðum leikskólans á liðnum árum og boðið verður upp á kaffi og meðlæti. Þá verður sýning á listaverkum barnanna á Brekkunni á Stöðvarfirði næstu vikurnar.

Frétta og viðburðayfirlit