mobile navigation trigger mobile search trigger
17.05.2016

Dansað við fjöllin

Norðurljósahús Íslands hóf starfsemi á Fáskrúðsfirði hvítasunnudag með opnun ljósmyndasýningarinnar „Dansað við fjöllin“. Í tilefni dagsins fluttu leikskólabörn á Kærabæ norðurljósalag. 

Dansað við fjöllin
Leikskólabörn á Kærabæ fluttu norðurljósalag í tilefni dagsins. (Ljósm. Jónína Guðrún Óskarsdóttir)

Einnig fluttu nemendur við tónlistarskóla Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar tónlistaratriði og Viðar Jónsson rakti í megindráttum tilurð Norðurljósahússins, sem verið hefur í undirbúningi frá því í október 2013.

Þá óskaði Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, frumkvöðlum norðurljósahússins til hamingju með glæsilegt framtak og afhenti fyrir hönd sveitarfélagsins styrk að upphæð kr. 200.000. 

Norðurljósahúsið er í Wathneshúsinu, sem stendur austanmegin við Franska spítalann. Húsið var reist af norska athafnamanninum Otto Wathne, sem var stórtækur í atvinnulífi Austfjarða á árunum 1880 til 1890. Wathneshús er nú í eigu Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði sem gert hefur húsið fallega upp.

Mikið fjölmenni var viðstatt opnunina. Ljósmyndir á sýningunni eru teknar á Fáskrúðsfirði af Jónínu G. Óskarsdóttur og Jóhönnu Kristínu Hauksdóttur og gera myndirnar því stórfenglega sjónarspili sem norðurljós standa fyrir vegleg skil.

Jónína og Jóhanna hafa tekið ljósmyndir af norðurljósum á Fáskrúðsfirði undanfarin ár og hafa 26 myndir úr safni þeirra verið valdar úr á sýninguna. Sumar af myndum þeirra hafa náð alþjóðlegri frægð og ratað m.a. á vef NASA, bandarísku geimferðastofnunarinnar.

Ljósmyndasýningin „Dansað við fjöllin“ verður opin alla daga til 30. september kl. 12:00 til 21:00.

Fleiri myndir:
Dansað við fjöllin
Fjölmennt var á opnuninni. Standandi yst til hægri eru Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar og Valdimar O. Hermannsson, bæjarfulltrúi. (Ljósm. Jónína Guðrún Óskarsdóttir)
Dansað við fjöllin
Frá opnuninni. (Ljósm. Jónína Guðrún Óskarsdóttir)
Dansað við fjöllin
Frumkvöðlarnir (f.v.) Viðar Jónsson, Jónína G. Óskarsdóttir, Jóhanna K. Haukdsóttir og Ingimar Guðmundson. (Ljósm. Mbl.)
Dansað við fjöllin
Gestir kvitta í gestabók Norðurljósahússins. (Ljósm. Jónína Guðrún Óskarsdóttir)
Dansað við fjöllin
Ljósmyndirnar á sýningunni sýna norðurljós í öllum sínum fjölbreytileika. (Ljósm. Jónína Guðrún Óskarsdóttir)
Dansað við fjöllin
Gestum var boðið upp á norðurljósaköku. (Ljósm. Jónína Guðrún Óskarsdóttir)
Dansað við fjöllin
Norðurljósashúsið er skemmtilega innréttað, í senn einfalt og stílhreint.

Frétta og viðburðayfirlit