mobile navigation trigger mobile search trigger
24.02.2017

Dregur úr plastpokanotkun í Fjarðabyggð

Til þess að draga úr notkun á plastpokum sem iðulega eru bara notaðir einu sinni var Pokastöðin Norðfirði – Plastpokalaus Norðfjörður stofnuð.

Dregur úr plastpokanotkun í Fjarðabyggð
Allt á fullu í pokasaumi

Pokastöðin er hópur áhugafólks um umhverfisvænan lífstíll sem saumar margnota burðarpoka og dreifir þeim í matvöruverslanir á Norðfirði þar sem viðskiptavinir geta fengið poka að láni.

Hugmyndin kviknaði hjá Áslaugu Lárusdóttur og Auði Þorgeirsdóttur í október í fyrra og byrjað var á verkefninu í nóvember. Pokarnir eru saumaðir úr gömlum bolum, peysum, öðrum fatnaði og vefnaðarvöru. Það hafa til dæmis verði saumaðir þó nokkrir pokar úr gömlum Neistaflugsbolum og hafa pokarnir verið eftirsóttir.

Verkefninu hefur verið tekið vel og fengið góðan meðbyr. Saumaðir hafa verið 700 pokar sem íbúar eru að nota.    

Í Nesbakka og Kjörbúðinni í Neskaupstað eru pokastöðvar með pokunum en þar er líka safnað saman bolum og öðru efni til að búa til pokana. Viðskiptavinir geta fengið poka að láni úr pokastöðinni og skilað þeim svo aftur þegar þeim hentar.

Saumahittingar eru á þriðjudagskvöldum í húsnæði gamla leikskólans Sólvalla og eru allir velkomnir að taka þátt. Það er gott að koma með saumavél en það er ekki nauðsynlegt því það þarf líka að sníða og klippa. Verkefnastjóri umhverfismála leit við sl. þriðjudagskvöld og voru þá saumaðir 77 pokar.

Það er líka hægt að taka þátt með því að gefa poka í stöðina, breyta bol eða efni í poka og setja í stöðina eða gefa bol sem hópurinn breytir í poka.

Umhverfisvernd er í hávegum höfð og enginn úrgangur kemur frá starfseminni. Til dæmis er efni  sem nýtist ekki eins og afskurður gefið til Rauða krossins. Efnisbútar sem henta ekki í stærri burðarpoka eru nýttir til að búa til poka fyrir bókasafnið. Snið fyrir poka er búið til úr morgunkornspökkum.

Fjarðabyggð er stolt af þessu frumkvæði íbúa á Norðfirði og styður að dregið sé úr notkun á plastpokum.

Slysavarnafélagið á Fáskrúðsfirði fyrirhugar að byrja að sauma poka fyrir verslanir á Fáskrúðsfirði og vonast er til að fleiri hópar verði til um sambærileg verkefni. 

Fleiri myndir:
Dregur úr plastpokanotkun í Fjarðabyggð
Morgunkornspakkar nýttir til þess að sníða
Dregur úr plastpokanotkun í Fjarðabyggð
Neistaflugsbolur sem fær nýtt hlutverk
Dregur úr plastpokanotkun í Fjarðabyggð
Pokarnir eru saumaðir úr alls kyns bolum
Dregur úr plastpokanotkun í Fjarðabyggð
Pokastöð

Frétta og viðburðayfirlit