mobile navigation trigger mobile search trigger
10.07.2015

Eistnaflug og Fjarðabyggð rokka

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri og Stefán Magnússon, skipuleggjandi Eistnaflugs, blása á umræðu um að Eistnaflug og Fjarðabyggð rokki ekki saman þegar kemur að einni stærstu tónlistarhátíð landsins. 

Eistnaflug og Fjarðabyggð rokka
Rokkað á tónleikum á Eistnaflugi.

Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu beggja. Þar segir enn fremur að íbúatala Neskaupstaðar þrefaldist þá daga sem Eistnaflug stendur, en tónlistarhátíðin hefur aldrei verið stærri og flottari en nú. Almennt þjónustugjald komi til móts við aukna kostnaðarhlutdeild sveitarfélagsins vegna stækkunar á hátíðinni, s.s. vegna salernisaðstöðu, gæslu, þjónustu á tjaldsvæði, bílastæða, afnotum af íþróttahúsi og öðru húsnæði sveitarfélagsins o.fl. 

Hér má sjá yfirlýsinguna í heild sinni:

Þegar við hittumst í byrjun árs, líkt og undanfarin ellefu ár, til að hefja undirbúning að tónlistarhátíðinni Eistnaflugi, lá fyrir að samstarf sveitarfélagsins og skipuleggjanda hátíðarinnar yrði umfangsmeira og flóknara en áður. Skipuleggjandinn, Millifótakonfekt ehf., vildi stækka viðburðinn enn frekar og hafði í þeim tilgangi beðið um að tónleikahald færðist úr Egilsbúð í íþróttahúsið í Neskaupstað. Áætlað var að gestir gætu orðið allt að 2.000 og hátt í 3.000 að tónlistarmönnum, starfsfólki og fjölmiðlum meðtöldum. Hljómsveitir og hliðarviðburðir yrðu fleiri en nokkru sinni áður. Þessar tillögur fengu strax góðan hljómgrunn. Hátíðin hefur frá upphafi gengið vel í góðu samstarfi íbúa, gesta og starfsmanna Eistnaflugs. Að hálfu bæjarstjórnar Fjarðabyggðar hefur því ekkert verið því til fyrirstöðu að Eistnaflug fengi að vaxa og dafna. 

Viðburður af þessari stærðargráðu nemur þrefaldri íbúatölu Neskaupstaðar þessa fimm daga sem hátíðin stendur. Mikilvægasta viðfangsefnið fyrstu undirbúningsfundina var að þessu leyti einfalt. Við urðum að finna leiðir að þessu metnaðarfulla marki varðandi gæslu, salernisaðstöðu, tjaldsvæði, bílastæði, tónleikaaðstöðu, aðstöðu fyrir hliðarviðburði, bílastæði, veitingasölu, sorphreinsun, eftirlit og svo mætti lengi telja. Niðurstaðan var að leggja á almennt 2.000 kr. þjónustugjald sem greiðir að hluta til niður beinan kostnað sveitarfélagsins af stækkun hátíðarinnar.
Undirbúningur stærsta Eistnaflugsins til þessa hefur verið vandasamt en afar skemmtilegt verkefni og hafa drög að næsta ári þegar verið lögð. Bókanir á hljómsveitum eru hafnar og hlökkum við til að hittast að venju í janúar og fara yfir skipulagið. Þó að þessi frumraun okkar gangi að óskum, má alltaf gera betur í skipulagningu stórra viðburða og smáatriðastjórnun.

Við viljum með þessari litlu yfirlýsingu okkar blása á alla umræðu um að Eistnaflug og Fjarðabyggð rokki ekki saman þegar kemur að einni stærstu tónlistarhátíð landsins, rokktónlistinni og sveitarfélaginu til heilla.

Skemmtum okkur áfram fallega undir fjöllunum fögru í Neskaupstað.
Góða skemmtun og ekkert rugl.

Það er bannað að vera fáviti á Eistnaflugi!

Fjarðabyggð, 10. júlí 2015

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri
Stefán Magnússon, Millifótakonfekti ehf.

Frétta og viðburðayfirlit