mobile navigation trigger mobile search trigger
03.03.2017

Enginn sá hundinn tilnefnd til barnabókaverðlauna Reykjavíkur

Hafsteinn Hafsteinsson fékk tilnefningu til barnabókaverðlauna Reykjavíkur fyrir bestu myndskreytingu í íslenskri barnabók.

Enginn sá hundinn tilnefnd til barnabókaverðlauna Reykjavíkur

Hafsteinn lærði myndskreytingar við Willem de Kooning Academy í Rotterdam. Hann býr í Neskaupstað með manni sínum, Hákoni Hildibrand.

Tilnefningin var fyrir bókina Enginn sá hundinn sem er fyrsta bók hans en hún er í bundnu máli. Bjarki Karlsson samdi vísurnar. Bókin fjallar um krakkana á Bakka sem verða himinlifandi þegar þau fá hvolp í jólagjöf. Næstu jól verða gjafirnar meira spennandi svo hundurinn verður útundan. Það fær hann til að grípa til eigin ráða. Bókin hefur fengið mjög góða dóma gagnrýnenda.

Hafsteinn sagði hugmyndina hafa kviknað þegar hann tók eftir því þegar hann var að vinna hvernig kisan hans vildi alltaf fá athygli. Hann hafði einnig oft tekið eftir því hvernig athygli fólks er límd við snjallsímana. Þetta varð til þess að hann fór að velta fyrir sér hvernig dýr sjá okkur þegar við erum með þessi tæki fyrir framan okkur.

Hafsteinn vildi koma þessum skilaboðum til barna og foreldra til að opna umræðuna um ofnotkun á tækjum. Fyrir honum var besta leiðin til að segja þetta að þetta kæmi frá hlutlausum aðila, frá sjónarhorni hundsins og gera það með gríni frekar en með leiðindum.

Framhald af bókinni er nú þegar komið á teikniborðið. Hugmyndavinnsla er í gangi og sagan er aðeins farin að mótast. Það verður áhugavert að fylgjast með framhaldinu hjá Hafsteini.

Frétta og viðburðayfirlit