mobile navigation trigger mobile search trigger
16.08.2016

Eyrarvellir á Neseyri

Innan skamms verður smiðshöggið rekið á nýjan og glæsilegan leikskóla á Neseyri í Neskaupstað. Um merkan áfanga er að ræða í skólastarfi sveitarfélagsins.

Eyrarvellir á Neseyri
Litrík leikskólalóð. Guli flöturinn er gerður úr gervigrasi.

Nýi skólinn hefur verið nefndur Eyrarvellir og tekur til starfa fimmtudaginn 18. ágúst nk. Heitið vísar með skemmtilegum hætti til bæði staðsetningar leikskólans á Neseyri og gamla skólans sem nefndist Sólvellir.

Fyrsta skóflustungan var tekin 14. janúar 2015 og tóku nemendur hver sína skófluna áður en Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar og Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri, létu til skarar skríða á gröfunni. Þær voru því af öllum stærðum og gerðum skóflurnar sem hófust á loft þennan dag, enda ekki á hverjum degi sem hafin er bygging á nýjum leikskóla.

Eyrarvellir voru hannaðir með hliðsjón af þörfum skólastarfsins, jafnt innan dyra sem utan og var leitast við að gera alla aðstöðu eins vel úr garði og kostur er, í samráði við m.a. starfsfólk skólans.

Sérstökum flekum hefur, sem dæmi, verið komið fyrir í rýmum og göngum byggingarinnar svo að hljóðvist hússins verði sem bærilegust og með sérstökum veggborðum, sem leggja má upp vegg, er leitast við að nýta sem best rými til bæði starfs og leiks. Framkvæmdir hafa gengið vel, þrátt fyrir heldur válynd veður á byggingartíma.

Áhersla var lögð á að framkvæmdir kæmu ekki niður á starfsemi skólans, m.a. með því að lengja sumarleyfi nemenda. Enn er þó eftir að fullgera lóð skólans og hafa foreldrar verið beðnir um að sýna aðgát þegar gengið er inn í skólann á meðan svo er. Gert er ráð fyrir að lóðarframkvæmdum ljúki í vikunni 22. til 28. ágúst.

Eyrarvellir eru átta deilda leikskóli. Með byggingu hans hefur þeim merka áfanga verið náð, að sveitarfélagið getur framvegis tekið við öllum ársgömlum börnum á Norðfirði í leikskóla.

Opnunarhátíð Eyrarvalla verður laugardaginn 17. september og eru allir velkomnir að sækja þennan nýja og glæsilega leikskóla heim.

Fleiri myndir:
Eyrarvellir á Neseyri
Veggföstum flekum er ætlað að stuðla að góðri hljóðvist.
Eyrarvellir á Neseyri
Herbergi með eða án borðs - hvort heldur hentar betur.
Eyrarvellir á Neseyri
Deildir skólans eru afmarkakaðr í rauðum, gulum, grænum eða bláum lit.
Eyrarvellir á Neseyri
Þetta er verðandi bókasafn Eyrarvalla.
Eyrarvellir á Neseyri
Farið yfir málin. Þóroddur Helgason, fræðslustjóri, Halla Höskuldsdóttir, leikskólastjóri, Gunnar Jónsson, bæjarritari og staðgengill bæjarstjóra og Marínó Stefánsson, sviðsstjóri framkvæmda-, umhverfis- og veitusvið.
Eyrarvellir á Neseyri
Leikskólinn eins og hann blasir við frá bílastæði sunnan megin við bygginguna. Rauður línurnar mynda völundarhús sem leika má sér í.
Eyrarvellir á Neseyri
Steypuvinna var í fullum gangi þegar þessi mynd var tekin.

Frétta og viðburðayfirlit