mobile navigation trigger mobile search trigger
02.06.2016

Fjarðabyggð gengur til liðs við Eldvarnabandalagið

Fjarðabyggð hefur gert samkomulag við Eldvarnabandalagið um að efla eldvarnir heimila og stofnana sveitarfélagsins. Var samkomulag þess efnis undirritað á slökkvistöð Fjarðabyggðar í dag.

Fjarðabyggð gengur til liðs við Eldvarnabandalagið

Í samkomulaginu felst m.a. að Fjarðabyggð innleiðir eigið eldvarnaeftirlit nú í haust samkvæmt leiðbeiningum, gátlistum og öðrum gögnum sem Eldvarnabandalagið hefur gefið út. 

Einnig verða þjálfaðir eldvarnafulltrúar sem annast eftirlit með eldvörnum í stofnunum sveitarfélagsins samkvæmt gátlistum Eldvarnabandalagsins, auk þess sem starfsmenn sveitarfélaganna fá fræðslu um eldvarnir, bæði á vinnustaðnum og heima fyrir.

Samstarfssamningurinn við Eldvarnabandlagið var undirritaður í dag á slökkvistöð Fjarðabyggðar í framhaldi af staðfestingu á nýrri brunavarnaáætlun sveitarfélagsins.

Fjarðabyggð er fyrsta sveitarfélagið á Austurlandi sem gerir samstarfssamning við Eldvarnabandalagið en áður hafa Akranes, Akureyri og Húnaþing vestra gert sambærilega samninga. Að sögn Páls Björgvins Guðmundssonar, bæjarstjóra, býður Eldvarnabandlagið upp á nýjar leiðir til að auka brunavarnir. Þá sé ekki síður mikilvægt að sveitarfélög gangi á undan með góðu fordæmi og eru vonir bundnar við að samstarfið skili sér í aukinni vitund innan sveitarfélagsins um mikilvægi eldvarna.

Eldvarnabandalagið er samstarfsvettvangur um auknar eldvarnir á heimilum og vinnustöðum. Aðild að því eiga: Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Félag slökkviliðsstjóra, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Mannvirkjastofnun, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, TM hf., Vátryggingafélag Íslands hf. og Vörður tryggingar hf.

Nálgast má nánari upplýsingar um starfsemi Eldvarnabandalagsins á eldvarnabandalagid.is.

Sjá frétt frá Fjarðabyggð um starfið við Eldvarnabandalag (pdf)

Fleiri myndir:
Fjarðabyggð gengur til liðs við Eldvarnabandalagið
Frá undirritun samstarfssamningsins á slökkvistöð Fjarðabyggðar í dag, (f.v.) Guðmundur Helgi Sigfússon, slökkviliðsstjóri, Páll Björgvin Guðmundson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar og Garðar H. Guðjónsson, verkefnastjóri.
Fjarðabyggð gengur til liðs við Eldvarnabandalagið
Kynningarefni frá Eldvarnabandalaginu.
Fjarðabyggð gengur til liðs við Eldvarnabandalagið
Kynningarefni frá Eldvarnabandalaginu.

Frétta og viðburðayfirlit