mobile navigation trigger mobile search trigger
02.12.2019

Fjarðabyggð kaupir Búðareyri 2 á Reyðarfirði

Á fundi bæjarstjórnar Fjarðabyggðar sl. fimmtudag samþykkti bæjarstjórn kaup húseignarinnar að Búðareyri 2 á Reyðarfirði sem ætlað er að hýsa framtíðaraðstöðu bæjarskrifstofu sveitarfélagsins.

Fjarðabyggð kaupir Búðareyri 2 á Reyðarfirði
Búðareyri 2 á Reyðarfirði - Mynd www.ja.is

Fyrir liggur að núverandi húsnæði bæjarskrifstofu Fjarðabyggðar að Hafnargötu 2 á Reyðarfirði rúmar ekki lengur starfsemi sveitarfélagsins og við því þarf að bregðast. Stefna sveitarfélagsins hefur á liðnum árum verið að hverfa frá því fyrirkomulagi að leigja eignir undir starfsemi sína og fest kaup á þeim í staðinn í þeim tilvikum sem slíkt var mögulegt. Leigusamningar um húsnæði gagnvart þriðja aðila eru færðir meðal langtímaskuldbindinga út leigutíma þannig að fjárfesting í húsnæðinu hefur ekki áhrif á skuldir sveitarfélagsins eða væntar fjárfestingar þess.

Með því að kaupa Búðareyri 2 er horft til þess að þangað færist starfsemi bæjarskrifstofu Fjarðabyggðar á næstu árum og uppbygging bæjarskrifstofunnar á þessum stað styrki miðbæ Reyðarfjarðar. Í byrjun er gert ráð fyrir að efri hæð hússins að Búðareyri 2 verði tekin til notkunar og síðan húsið allt er leigjendur sem þar eru nú, flytja starfsemi sína. Í framhaldinu verði metin þörf á viðbyggingu og hönnun hennar. Stefnt verði að því að leigja núverandi húsnæði bæjarskrifstofu á meðan eða þangað til allri starfsemi bæjarskrifstofunnar verði komið fyrir undir sama þaki.

Frétta og viðburðayfirlit