mobile navigation trigger mobile search trigger
20.02.2017

Fjöldi dansaði gegn ofbeldi

Milljarður rís í Fjarðabyggð fór fram á föstudag og dönsuðu þátttakendur á öllum aldri í minningu Birnu Brjánsdóttur.

Fjöldi dansaði gegn ofbeldi
Milljarður rís 2017.

Fjöldi var samankominn í íþróttahúsinu í Neskaupstað í hádeginu á föstudag og dansaði fyrir réttlátari heimi. Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri, hélt ávarp þar sem hann kom m.a. inn á mikilvægi þess að við pössum upp á hvert annað. Næst kom Guðrún Smáradóttir upp og leiddi dansinn. Byrjað var á upphitunarsporum en síðan kom hvert lagið á fætur öðru með fjölbreyttum sporum. Þátttakendur voru á öllum aldri, frá leikskólaaldri upp í eldri borgara og allir tóku virkan þátt. Dansinn var það æsilegur að svitinn bogaði af fólki.

Þegar dansinum lauk söfnuðust þátttakendur saman og minntust Birnu Brjánsdóttur með því að haldast í hendur og mynda hjarta. Ljósin voru slökkt og kveiktu þátttakendur á ljósum í símum sínum. Lag Gunnars Þórðarsonar við ljóð Friðriks Erlingssonar, Alein, sem samið var til minningar um Birnu, hljómaði á meðan. 

Viðburðurinn var haldinn af UN Women í samstarfi við Fjarðabyggð, VA og Nesskóla. Fjarðabyggð var eitt 10 sveitarfélaga þar sem viðburðurinn var haldinn en þetta var í fimmta sinn sem hann er haldinn í Neskaupstað. Fjöldi þátttakenda hefur vaxið ár frá ári og mun án efa gera það áfram því málefnið er þarft.

Hægt er að sjá myndband af viðburðinum á Fésbókarsíðu Fjarðabyggðar.

Fleiri myndir:
Fjöldi dansaði gegn ofbeldi
Dansað gegn ofbeldi.
Fjöldi dansaði gegn ofbeldi
Allir þátttakendur eftir viðburðinn.
Fjöldi dansaði gegn ofbeldi
Þátttakendur mynda hjarta.
Fjöldi dansaði gegn ofbeldi
Birnu Brjánsdóttur minnst.

Frétta og viðburðayfirlit