mobile navigation trigger mobile search trigger
15.01.2017

Fleiri nýjungar í Oddsskarði

Snjótroðarinn var ekki eina nýjungin á fyrsta opnunardegi vetrarins í Oddsskarði í gær.

Fleiri nýjungar í Oddsskarði
Aðgangshlið á barnasvæði

Nýtt aðgangsstýringarkerfi, Skidata, var tekið í gagnið. Kerfið er sambærilegt við það sem gerist á helstu skíðasvæðum Evrópu. Það felst í því að viðskiptavinir fá kort sem hægt er að hlaða inn á og aðgangshlið lesa síðan kortin sem geta t.d. legið í vasa skíðamanna.

Rekstraraðilar Oddsskarðs settu kerfið upp og er það bylting í utanumhaldi á skíðasvæðinu. Helsta breytingin er sú að í stað þess að selja miða fyrir heilan dag er nú t.d. hægt að kaupa ákveðinn fjölda klukkutíma í einu. Einnig er hægt er að kaupa sig inn á sérstök svæði. Sem dæmi má nefna að ef fullorðnir vilja eyða tíma sínum á barnasvæðinu geta þeir nú keypt aðgang þar á barnaverði. Aðgangurinn er þá bundinn við það svæði og ekki væri hægt að komast í gegnum hliðin á öðrum svæðum.

Kerfið gerir það einnig að verkum að í stað þess að starfsmenn við lyfturnar þurfi að vera að skoða miða viðskiptavina geta þeir einbeitt sér að mestu að lyftuvörslu.

Að auki gefur kerfið færi á vinnslu tölfræðiupplýsinga. Auðvelt er að sjá hvernig dreifingin er á milli svæða, tíma dags o.s.frv. Einnig er hægt að sjá hvaðan gestir koma sem gagnast vel í markaðsstarfi.

Á myndunum má sjá aðgangsstýringarhliðin sem um ræðir.

Fleiri myndir:
Fleiri nýjungar í Oddsskarði
Farið inn um aðgangshlið

Frétta og viðburðayfirlit