mobile navigation trigger mobile search trigger
15.11.2015

Frábær árangur hjá grunnskólum Fjarðabyggðar

Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar sigraði í vélmennakapphlaupi á LEGO-hönnunarkeppninni sem fram fór í Háskólabíói í gær og Grunnskóli Reyðarfjarðar var með bestu lausn í hönnun og forritun vélmennis.

Frábær árangur hjá grunnskólum Fjarðabyggðar
LegoFásk, lið Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar, á sviðinu á Háskólabíói í gær.

Það voru hins vegar Drekarnir, lið Vopnafjarðarskóla, sem bar sigur úr býtum í FIRST LEGO League keppninni og hefur liðið þar með hlotið þátttökurétt fyrir Íslands hönd í alþjóðlegu keppninni á næsta ári.

FIRST LEGO League keppnin fór fram í 11. sinn í Háskólabíói í gær. Markmið keppninnar er að vekja áhuga hjá ungu fólki á því að skara fram úr á sviði tækni og vísinda. Alls voru 20 lið úr grunnskólum víðs vegar um landið skráð til leiks og hafa þau aldrei verið fleiri. Hvert lið er skipað allt að tíu ungmennum á aldrinum 10 til 16 ára.

Sorp var að þessu sinni þema keppninnar, sem fer fram í fjórum aðskildum hlutum og eru verðlaun veitt fyrir hvern hluta. Eins og áður segir unnu grunnskólar í Fjarðabyggð til tveggja af þessum verðlaunum. Hin tvö fóru til Naustaskóla á Akureyri fyrir besta rannsóknarverkefnið og til Flúðaskóla fyrir bestu liðsheildina.

Með þessum frábæra árangri fylgja grunnskólar Fjarðabyggðar vel eftir þeim einstaka árangri sem náðist í fyrra, þegar lið Grunnskólans á Reyðarfirði sigraði keppnina. Alls tóku þrjú lið frá Fjarðabyggð þátt eða frá Grunnskólum Eskifjarðar, Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar.

Heimasíða keppninnar

Frétt á vef Háskóla Íslands

Í LegoFásk eru Anya hrund Shaddock, Birgitta Ás Baldvinsdóttir, Bjarney Birta Bergsdóttir, Fannar Haukur Hjálmarsson, Júlíus Mourad, Lúðvík Héðinn Gunnarsson og Ronja Snædís Frostadóttir.

Í Trashmasters eru Björn Leví Ingvarsson, Bóas Kári Garski Ketilsson, Bríet Sigurjónsdóttir, Dagbjört Li Bryngeirsdóttir, Fanney Ösp Guðjónsdóttir, Hilmir Birgisson, Hlynur Þórarinsson, Marta Lovísa Kjartansdóttir, Ragnar Björgvin Ólafsson, Rósa Elísabet Jónsdóttir og Þórður  Emanúel Sigurjónsson. Á myndina vantar Bríeti.

Fleiri myndir:
Frábær árangur hjá grunnskólum Fjarðabyggðar
Trashmasters, lið Grunnskóla Reyðarfjarðar.

Frétta og viðburðayfirlit