mobile navigation trigger mobile search trigger
06.11.2019

Framkvæmdir við snjóflóðavarnir í Neskaupstað

Hafnar eru framkvæmdir við ofanflóðavarnir neðan Urðarbotna og Sniðgils. Verktaki er Héraðsverk ehf., sá hinn sami og í Tröllagiljagörðunum. Vinna við verkið hófst í ágúst við hreinsun ofan af klöpp auk þess sem unnið var við afvötnun vinnusvæðis. Verkið gekk vonum framar fram í september og gat verktaki haugsett töluvert af efni, sem verður látið þorna yfir veturinn. Vegna einmuna vætutíðar var lítið um framkvæmdir í október.

Framkvæmdir við snjóflóðavarnir í Neskaupstað

Verði tíðarfar hagstætt á næstu vikum er áætlað að vinna við:

  • Færslu stofnvatnslagnar að og frá miðlunargeymi.
  • Uppsetningu á vinnubúðum, sem staðsettar verða fyrir ofan núverandi tjaldstæði.
  • Klapparlosun vestast í þvergarði.

Framkvæmd og tímasetning klapparlosunar (sprenginga) er sem hér segir:

  • Settir verða upp fjórir skjálftamælar til að fylgjast með sprengingum.
  • Tímasetningar sprenginga verða fastsettar á tveimur tímabilum.

Annars vegar á milli 11.00 og 12.00 og hins vegar á milli 16.00 og 17.00.

  • Verktaki mun rýma skilgreint öryggissvæði fyrir hverja sprengingu.
  • Verktaki mun gefa þrjú löng hljóðmerki fimm mínútum áður en sprengt er og eitt langt hljóðmerki þegar búið er að sprengja.
  • Verði tíðarfar hagstætt er gert ráð fyrir að sprengt verði í um 20 skipti fram til áramóta.

Framkvæmdar hafa verið ástandsskoðanir á húsum í nærumhverfi framkvæmdasvæðis.
Óski húseigendur að fá afrit af úttektarskýrslu fyrir húseign sína er þeim bent á að hafa samband við sviðsstjóra framkvæmdasviðs.

Eins og áður er óskað eftir góðu samstarfi við íbúa og er sérstaklega óskað eftir að foreldrar fari yfir sprengitíma með börnum sínum og hvað ber að varast í tengslum við framkvæmdirnar.

Frétta og viðburðayfirlit