mobile navigation trigger mobile search trigger
07.04.2016

Franski spítalinn hlýtur menningarverðalaun Evrópu

Minjavernd hefur hlotið menningarverðlaunin Europa Nostra á sviði menningararfleifðar fyrir enduruppbyggingu og um umbreytingu Franska spítalans á Fáskrúðsfirði í safn. Er þetta í fyrsta sinn sem íslenskt verkefni hlýtur þessi virtu verðlaun.

Franski spítalinn hlýtur menningarverðalaun Evrópu
Franski spítalinn hýsir í dag fjölbreytta safna- og hótelstarfsemi.

Í ár bárust alls 187 tilnefningar til verðlaunanna, sem eru veitt í fjórum flokkum eða fyrir varðveislu og verndun, rannsóknir, óeigingjarnt framlag og fræðslu, þjálfun og upplýsingamiðlun.

Minjavernd hlaut verðlaunin í flokki varðveislu og verndunar ásamt 11 öðrum verðlaunaverkefnnum á m.a. Grikklandi, Hollandi, Spáni og Bretlandi.

Franski spítalinn er hluti af umfangsmiklu verkefni sem Minjavernd hefur leitt á Fáskrúðsfirði við endurgerð á húsum sem reist voru í kringum aldamótin 1900.

Í frétt frá Minjavernd segir m.a. áhugi hafi vaknað árið 2008 á endurgerð Franska spítalans í samstarfi við Fjarðabyggð, en þá var þetta sögufræga hús staðsett á Hafnarnesi í Fáskrúðsfirði. Ákveðið var að flytja húsið nálægt upprunalegri staðsetningu við Hafnargötu og að endurgera samhliða fjögur önnur sögufræg hús á Fáskrúðsfirði eða Læknishúsið, Litlu kapelluna, Líkhúsið og Sjúkraskýlið. 

Frönsku húsin á Fáskrúðsfirði voru tekin í notkun árið 2014, en auk safnsins Frakkar á Íslandsmiðum hýsa þau Fosshótel Austfirði og veitingastaðinn l'Abri.

Heildarkostnaður verkefnisins nemur tæpum 1.300 milljónum króna.

Europa Nostra eru menningarverðalun Evrópusambandsins og eru ein virtustu verðlaun heims á sínu sviði. Forseti Europa Nostra er óperusöngvarinn þekkti, Plácido Domingo. Afhending verðlaunanna fer fram 24. maí í Zarzúela leikhúsinu í Madríd.

Almenningi gefst kostur að kjósa um eitt af verðlaunaverkefnum Europa Nostra og hlýtur það verkefni sem fær flest atkvæði Public Choice Award. Kosið á á: http://vote.europanostra.org/.

Tengt efni:

Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði - Europa Nostra (pdf)

Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði - fréttatilkynning Minjavernd (pdf)

Fleiri myndir:
Franski spítalinn hlýtur menningarverðalaun Evrópu
Hér má sjá Litlu kapelluna og Sjúkraskýlið, sem eru hluti af frönsku húsunum sem hafa verið endurreist á Fáskrúðsfirði. Fjær má sjá glitta í gaflinn á Læknishúsinu.
Franski spítalinn hlýtur menningarverðalaun Evrópu
Franski spítalinn gegni veigamiklu hlutverki fyrir fiskveiðar Frakka hér við land, sem stóðu yfir um þriggja alda skeið eða frá 1614 til 1914.
Franski spítalinn hlýtur menningarverðalaun Evrópu
Franski spítalinn var fluttur út á Hafnarnes við Fáskrúðsfjörð árið 1939. Hér má sjá ástand hússins um það leyti sem verkefnið hófst.

Frétta og viðburðayfirlit