mobile navigation trigger mobile search trigger
05.08.2016

Girðingarátak NAUST og Fjarðabyggðar

Fjarðabyggð tekur um þessar mundir þátt í hvatningarátaki til fjarlægingar ónýtra girðinga í samstarfi við Náttúruverndarsamtök Austurlands - NAUST, ásamt fleiri sveitarfélögum á Austurlandi. Tilgangur átaksins er fyrst og fremst vitundarvakning þar sem reynt er að auka meðvitund fólks fyrir ónýtum girðingum og öðru rusli í náttúrunni. Sveitarfélögin sem þátt taka bjóða landeigendum upp á ákveðna aðstoð og hvati fyrir tiltekt er því fyrir hendi.

Girðingarátak NAUST og Fjarðabyggðar

Verkefnið í Fjarðabyggð

Íbúum Fjarðabyggðar sem hafa hag af verkefninu, bændur sem aðrir umráðamenn lands, býðst aðstoð við að bæði fjarlægja ónýtar girðingar og/eða að vír og annað sem til fellur við niðurrif girðinga. Einnig er tekið á móti efni sem komið er með á grendarstöðvum sveitarfélagsins.

Sveitarfélagið mun yfirfara land í sinni eigu og fjarlægja þær ónýtu girðingar sem þar eru. Einnig verða girðingar á yfirgefnum jörðum kortlagðar og gerð aðgerðaráætlun samkvæmt núgildandi girðingalögum nr. 135/2001 þar sem kveðið er á um að umráðamönnum lands er skylt að hreinsa burt ónothæfar girðingar af jörðum sínum. Ef um vanrækslu er að ræða kemur það í hlut sveitarfélagsins að framkvæma hreinsunina á kostnað umráðamanns lands.

Tengiliður verkefninsins er Anna Berg Samúelsdóttir, umhverfisstjóri s. 470 9065 / 857 0774 og anna.b.samuelsdottir@fjardabyggd.is.

Fjarðabyggð og NAUST hvetja landeigendur/umráðamenn lands til þess að taka til hendinni og nýta sér þá aðstoð sem í boði er. Samstillt átak er vænlegast til árangurs.

 

Frétta og viðburðayfirlit