mobile navigation trigger mobile search trigger
13.07.2015

Guðmundur Bjarnason er látinn

Guðmundur Bjarnason fyrrverandi bæjarstjóri Fjarðabyggðar er látinn.  Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað að morgni laugardagsins 11. júlí.  Útför Guðmundar fer fram frá Norðfjarðarkirkju laugardaginn 18.júlí og hefst kl. 14:00.  Hægt verður að fylgjast með útförinni á skjá í Egilsbúð.

Guðmundur Bjarnason er látinn
Guðmundur Bjarnason, fyrrverandi bæjarstjóri Fjarðabyggðar, er látinn.

Guðmundur var fæddur 17.júlí 1949 í Neskaupstað, yngsta barn hjónanna Láru Halldórsdóttur verkamanns, f. 13.11. 1913 í Neskaupstað, d. 4.12. 2000, og Bjarna Guðmundssonar verkamanns, f. 11.9. 1909 í Neskaupstað, d. 18.7. 1984.

Systur Guðmundar eru Sigurbjörg f. 12.8. 1937, d. 10.febrúar 2005 og Birna f. 20.6. 1943. Eftirlifandi eiginkona Guðmundar er Klara Ívarsdóttir f. 23.3. 1953.  Stjúpbörn Guðmundar eru Ívar Sæmundsson f. 16.6. 1969, og Sigurborg Sæmundsdóttir, f. 10.3. 1975.

Guðmundur varð stúdent frá Menntaskólanum á Laugarvatni 1969 og lauk BA-prófi í almennum þjóðfélagsfræðum frá HÍ 1975. Hann starfaði sem kennari við Gagnfræðaskólann í Neskaupstað 1973-1977 og var starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar hf. í Neskaupstað 1977-1991. Guðmundur var bæjarstjóri í Neskaupstað 1991-1998, fyrsti bæjarstjóri Fjarðabyggðar 1998 og gegndi því starfi til 2006.

Hann starfaði síðustu árin hjá Alcoa-Fjarðaáli.  Guðmundur sat í fjölda stjórna og ráða á sínum starfsferli.

Fjarðabyggð vottar Klöru Ívarsdóttur eftirlifandi eiginkonu Guðmundar og fjölskyldu hans, innilega samúð vegna fráfalls hans.

Blessuð sé minning Guðmundar Bjarnasonar.

Frétta og viðburðayfirlit