mobile navigation trigger mobile search trigger
26.05.2016

Heimsókn 6. bekkinga í Mjóafjörð

Nemendur 6. bekkja í Fjarðabyggð, samtals um 70 börn, sigldu nýlega frá Norðfirði yfir til Mjóafjarðar. Siglt var á skemmtibátnum Gerpi, nýuppgerðum trébát frá Norðfirði, sem Hildibrand Hótel rekur nú í sumar. 

Heimsókn 6. bekkinga í Mjóafjörð

Fyrst var siglt að Barsnesi þar sem nemendur fengu fræðslu frá Önnu Berg Samúelsdóttur, umhverfisstjóra Fjarðabyggðar. Anna Berg sagði nemendum frá sögu eyðifjarðanna, fræddi þá um fuglalífið í berginu þar sem nemendur gátu fylgst með fuglinum þar sem hann lá á hreiðri og sagði einnig frá jarðfræði svæðisins, Rauðubjörgunum sem ljómuðu í sólskininu. Síðan var siglt framhjá Norðfjarðarnípunni á leiðinni til Mjóafjarðar og þar sást vel til Dalatanga, austustu byggðar á Íslandi.

Í Mjóafirði var nemendum tekið með kostum og kynjum. Margrét Sigfúsdóttir, Guðjón Kristinn Halldórsson og nemendur Grunnskólans í Mjóafirði gengu um þorpið og sögðu nemendum frá markverðum stöðum. Sævar Egilsson og Erna Ólöf Óladóttir á Borg buðu nemendum að skoða fiskvinnsluna, en þar stóð grásleppuvertíðin yfir og nemendur fengu fræðslu um hrognkelsin, grásleppuna og rauðmagann. Boðið var upp á hrogn og reyktan rauðmaga og óhætt að segja að heimsóknin hafi verið mikil upplifun fyrir nemendur.

Síðan var kirkjan heimsótt þar sem Friðrik Þorvaldsson leiddi sálmasöng með nemendum. Gengið var upp á Höfða, skrifað þar í gestabók og að styttunni af Hjálmari Hermannssyni, fyrsta ábúanda á Brekku, þar sem vel sér yfir byggðina. Anna Guðrún Sigfúsdóttir og Jóhanna Lárusdóttir tóku á móti nemendum í fjárhúsinu þar sem sauðburður var hafinn. Nemendur fengu að taka lömbin í fangið og fylgjast með bústörfunum. Frábær upplifun fyrir nemendur sem undu sér hið besta.

Grillað var framan við skólahúsnæðið Sólbrekku í Mjóafirði og síðan siglt til baka til Norðfjarðar. Frábær dagur í alla staði, þrátt fyrir svolitla ágjöf á leiðinni heim.

Hljóta Mjófirðinga bestu þakkir nemenda og starfsfólks fyrir frábærar móttökur.

Ljósmyndir úr ferðinni tók Guðjón Kr. Halldórsson

Fleiri myndir:
Heimsókn 6. bekkinga í Mjóafjörð
Heimsókn 6. bekkinga í Mjóafjörð
Heimsókn 6. bekkinga í Mjóafjörð
Heimsókn 6. bekkinga í Mjóafjörð
Heimsókn 6. bekkinga í Mjóafjörð
Heimsókn 6. bekkinga í Mjóafjörð
Heimsókn 6. bekkinga í Mjóafjörð
Heimsókn 6. bekkinga í Mjóafjörð

Frétta og viðburðayfirlit