mobile navigation trigger mobile search trigger
06.11.2023

Heimsókn bæjarstjóra á Fáskrúðsfjörð

Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, ásamt Haraldi Líndal, upplýsingafulltrúa heimsóttu hluta af stofnunum og fyrirtækjum á Fáskrúðsfirði, miðvikudaginn 1. nóvember. Því miður vannst ekki tími til að heimsækja alla þá fjölbreyttu og áhugaverðu starfsemi sem er í gangi á Fáskrúðsfirði að þessu sinni.

Heimsókn bæjarstjóra á Fáskrúðsfjörð
Jóna Árný ásamt nemendum leiksólans

Heimsóknin hófst í leikskólanum Kærabæ þar sem leikskólastýran Ásta Eggertsdóttir, ásamt Guðný Elísdóttur aðstoðarskólastýru tóku á móti bæjarstjóra. Farið var um húsnæðið og starfsemin kynnt. Heilsað var uppá starfsfólk og nemendur sem voru mjög spennt að fá gest í heimsókn. Kæribær er þriggja deilda leikskóli og starfa þar börn á aldrinum eins til sex ára. Á leikskólanum eru 35 nemendur og 12 starfsmenn. Einkunnarorð Kærabæjar eru Kunnátta – Kæti – Kærleikur og endurspegluðust þau vel í mótttökunum sem bæjarstjóri fékk bæði meðal starfsmanan og nemenda. Leikskólastjóri fór yfir þau fjölmörgu verkefni sem unnið er að með nemendum og vakti það sérstaka athygli bæjarstjóra hvernig starfsmenn eru með vakandi auga fyrir nýtingu á allskonar hráefni sem fellur til í umhverfinu og nýta það í sínu skólastarfi í takt við hringrásarhugsunina. Einnig var farið yfir áherslurnar í uppeldi til ábyrgðar og hvernig hvert tækifæri er nýtt til að efla nemendur sem einstaklinga.

Leik- og grunnskólinn eru samtengdir ásamt tónlistaskólanum og var farið yfir í grunn- og tónlistaskólann að lokinni heimsókn í Kærabæ.

Valdimar Másson skólastjóri tónlistaskólans ræddi við bæjarstjóra og sýndi henni aðstöðuna og einnig settumst við niður með Berglindi Agnarsdóttur tónlistarkennara sem hafði nýlokið kennslustund með yngsta nemenda tónlistarskólans sem er á leikskólaaldri.

Eydís Ósk skólastýra grunnskólans leiddi okkur um grunnskólann kynnti fyrir okkur þá starfsemi sem fer þar fram. Kennsla fer fram í fyrsta til tíunda bekk. Samkennsla fer fram í fyrsta og öðrum bekk, sjötta og sjöunda og níunda og tíunda bekk.  Nemendur eru 101 við grunnskólann á Fáskrúðsfirði og þar starfa um 34 starfsmenn. Bæjarstjóri náði að setjast örstutta stund í frímínútum með kennurum og tók svo þátt í söngstund þar sem nemendur í leik- og grunnskóla koma saman og syngja nokkur vel valin lög saman í salnum í skólanum með undirleik Valdimars og Berglindar. Söngstund fer fram aðra hverja viku og hina vikuna er Just Dance á föstudögum.

Svanur Freyr sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdarsviðs tók svo á móti okkur í nýju þjónustumiðstöðinni á Fáskrúðsfirði, ásamt Ara Sigursteinssyni, bæjarverkstjóra, Guðmundi Jakobssyni starfsmanni þjónustumiðstöðvarinnar og Birki Guðjónssyni hafnarstarfsmanni. Verið er að leggja lokahönd á framkvæmdirnar í nýju þjónustumiðstöðinni og vonir standa til að hægt verði að taka hana í notkun á næstu vikum. Með nýrri þjónustumiðstöð mun aðstaðan stórbatna og verður komin á einn stað.

Þá var farið og skoðuð aðstaðan í íþróttahúsinu og þar tók á móti okkur Ölver Jakobsson forstöðumaður og Magnús Árni Gunnarsson, deildarstjóri íþróttamála og íþróttamannvirkja. Íþróttamiðstöðin er alhliða íþróttahús í fullri stærð. Þar fer fram leikfimi grunnskólanna, æfingar hjá íþróttafélaginu Leikni og er opið fyrir almenning, einnig er húsið nýtt fyrir mótahald og keppnir. Líkamsræktarstöð er einnig í íþróttahúsinu en hún  er rekin af íþróttafélaginu Leikni og er aðstaðan mjög góð og snyrtileg og greinilega vel um húsið gengið. Sigurveig Agnarsdóttir tók svo á móti okkur í sundlauginni á Fáskrúðsfirði, en um er að ræða eina af minnstu innisundlaugum á landinu en hún er 12, 5 metrar á lengd sem var tekin í notkun árið 1948. Sundlaugarhúsið er tvískipt og var austurhluti þess leikfimissalur og samkomuhús staðarins á árum áður. Félag eldri borgara á Fáskrúðsfirði hefur nú þennan hluta til afnota fyrir sitt félagsstarf. Að auki er þar golfhermir og spinning salur sem eru mikið notaðir.

Úr sundlauginn var svo haldið yfir í Meta ehf pípulagnir og holræsahreinsun. Þar tóku á móti okkur hjónin Ólafur Níels Eiríksson og Jóhanna Ríkey Jónsdóttir eigendur Meta. Meta þjónustar fyrirtæki vítt og breytt á Austurlandi og þar á meðal Fjaraðbyggð og er óhætt að segja að mikill vöxtur hafi einkennt starfsemina  undanfarin ár. Eigendurnir fóru vel yfir starfsemina og hvernig þeim hefur tekist að vaxa hratt þrátt fyrir oft ófyrirsjáanleika í ytra umhverfinu. Hjá Meta starfa að jafnaði tíu manns. Fyrirtækið hefur m.a. komið sér upp góðum vörulager tengt pípulögnum sem ýmsir sækja í víða að á Austurlandi.

Gallerí Kolfreyja var svo heimsótt en þar tók á móti okkur Berglind Agnarsdóttir, galleríið er staðsett í Tanga, sem er gamla kaupfélagshúsið. Handverkshúsið var opnað 1. júní árið 2013, af handverkskonum á Fáskrúðsfirði og hefur verið rekið af þeim síðan í sjálfboðavinnu. Nafnið Kolfreyja tengist firðinum og er nafn á tröllskessu einni sem bjó utar í firðinum. Galleríið er opið alla daga á sumrin og þar er hægt að finna handverk Fáskrúðsfirðinga af ýmsum tagi. Á veturna er svo tekið á móti hópum.

Norðurljósahús Íslands var svo heimsótt og tók þar á móti okkur Jónína Guðrún Óskarsdóttir ljósmyndari með meiru. Þar er boðið uppá stórbrotna sýn á norðurljósin í allri sinni fjölbreyttu litadýpt. Allar norðurljósamyndirnar eru teknar af Fáskrúðsfirðingunum og áhugaljósmyndurunum Jóhönnu G. Óskarsdóttur og Jónínu G. Óskarsdóttur.

Norðurljósahúsið er í Wathne húsi sem stendur við sjávarsíðuna, austan megin við Franska spítalann. Það var reist árið 1882 af athafnamanninum Otto Wathne og endurbyggt af Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði 2011 í samstarfi við Húsafriðunarnefnd.

Þaðan var svo haldið yfir í franska safnið, Frakkar á Íslandsmiðum og þar tók Fjóla Þorsteinsdóttir á móti bæjarstjóra og hefur Fjóla  stýrt safninu af myndarskap undanfarin ár. Safnið er til húsa í tveimur reisulegum byggingum sem Frakkar reistu upp úr aldamótunum 1900 eða Læknishúsinu og Franska spítalanum á Fáskrúðsfirði.  Meginsýning safnsins er þó í hvorugu húsanna, heldur  í undirgöngum sem tengja þau saman.

Frakkar á Íslandsmiðum er án efa eitt athyglisverðasta safn landsins. Ekki aðeins fyrir hönnun þess og nálgun við viðfangsefnið, heldur einnig vegna andrúmsloftsins sem tekist hefur að skapa. Lifandi nærmynd er brugðið upp af lífi sjómanna um borð í frönsku skútunum sem sóttu Íslandsmið og skynjar áhorfandinn glöggt aðstæður þeirra og daglegt líf. Þá veitir safnið einnig glögga innsýn í starfsemi Franska spítalans og merka starfsemi hans upp úr aldamótunum 1900.

Að lokum kíktum við svo yfir á Fosshótel og tóku þar á móti okkur Krzysztof Madejski hótelstjóri og Rafal Koczanowicz starfsmaður hótelsins. Starfsmenn voru í óða önn að undirbúa vetralokun. Hótelinu verður nú lokað mánuði seinna en verið hefur og stefnt er að því að það opni aftur 1. mars, eða mánuði fyrr en í fyrra. Vetralokunin hefur því styst undanfarin ár og verður nú fjórir mánuðir. Rædd voru ýmis mál tengd ferðaþjónustu og þau tækifæri sem eru til staðar á Austfjörðum og í auknu samstarf ferðaþjóna á svæðinu. Ljóst er að Krzysztof og Rafal eru með fullt af spennandi hugmyndum sem gaman verður að fylgjast með á næstu misserum.

Starfsemi hótelsins fer fram í fjórum byggingum við Hafnargötuna sem hafa verið endurgerðar í samvinnu við Minjavernd. Þekktasta húsið er Franski spítalinn sem var reistur árið 1903 og í notkun sem sjúkrahús í um aldarfjórðung. Húsið var flutt út í Hafnarnes árið 1939 þar sem það var endurreist sem fjölbýlishús og skóli. Við enduruppbyggingu húsanna var lögð áhersla á að endurnýta byggingarefni eins og hægt var. Byggingarnar hlutu menningarverðlaun Evrópu, Europa Nostra á sviði menningararfleiðar vegna þessara umbreytinga en þetta er jafnframt fyrsta verkefnið hér á landi sem hlýtur þessi eftirsóttur verðlaun.

Næstu vikur mun Jóna Árný sem tók við sem bæjarstjóri Fjarðabyggðar í vor fara um byggðakjarnana og heimsækja stofnanir sveitarfélagsins og ýmis fyrirtæki sem starfa í samfélaginu okkar. Áhugasömum er bent á að vera í sambandi við upplýsingafulltrúa Fjarðabyggðar á netfangið haraldur.haraldsson@fjardabyggd.is

Fleiri myndir:
Heimsókn bæjarstjóra á Fáskrúðsfjörð
Jóna Árný, Ásta Eggertsdóttir, leikskólastýra og Guðný Elísdóttir aðstoðar leikskólastýra
Heimsókn bæjarstjóra á Fáskrúðsfjörð
Valdimar Ma´sson skólastjóri tónlistaskólans og jóna Árný
Heimsókn bæjarstjóra á Fáskrúðsfjörð
Jóna Árný og Eydís Ósk Heimisdóttir skólastýra
Heimsókn bæjarstjóra á Fáskrúðsfjörð
Guðmundur Jakobsson, Ari Sigursteinsson, Svanur Freyr Arnarson, Jóna Árný og Birkir Guðjónsson
Heimsókn bæjarstjóra á Fáskrúðsfjörð
Magnús Árni, Jóna Árný og Ölver Jakobsson
Heimsókn bæjarstjóra á Fáskrúðsfjörð
Sigurveig Agnarsdóttir, Jóna Árný og Magnús Árni
Heimsókn bæjarstjóra á Fáskrúðsfjörð
Jóna Árný á leið í spinning
Heimsókn bæjarstjóra á Fáskrúðsfjörð
Ólafur Níels Eiríksson, Jóna Árný og Jóhanna Ríkey Jónsdóttir
Heimsókn bæjarstjóra á Fáskrúðsfjörð
Berglind Agnarsdóttir og Jóna Árný

Frétta og viðburðayfirlit