mobile navigation trigger mobile search trigger
04.12.2023

Heimsókn bæjarstjóra til Neskaupstaðar

Fimmtudaginn 23. nóvember s.l. heimsótti Jóna Árný, bæjarstjóri ásamt þeim Önnu Marín Þórarinsdóttur, stjórnanda fræðslumála og skólaþjónustu og Haraldi Líndal, upplýsingafulltrúa stofnanir Fjarðabyggðar og Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA).  

Heimsókn bæjarstjóra til Neskaupstaðar
Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir, Anna Marín Þórarinsdóttir og Jóna Árný Þórðardóttir

Heimsóknin byrjaði í Nesskóla en þar tók á móti bæjarstjóra Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir, aðstoðarskólastjóri Nesskóla. Heimsóknin hófst á samverustund með öðrum bekk þar sem börnin buðu bæjarstjórann sem og foreldra sína velkomin á sal og fluttu fyrir hópinn flotta sýningu undir stjórn kennara síns Guðrúnar Smáradóttur. Í sýninguna nýttu þau efnivið úr náminu eins og t.d. samheiti og andheiti og luku síðan samverustundinni með skemmtilegum dansi. Að lokinni samverustund fór Þórfríður með hópinn um skólann og var kíkt inn í kennslustundir hjá bæði eldri og yngri bekkjum og spjallað við nemendur. Eldri bekkirnir voru í svokallaðri samþættingu og voru að reikna út kostnað við að kaupa og reka bíl. Heyra var á nemendum að þeim hlakkaði til að fá bílprófið og greinilega tímabært að fara velta fyrir sér þessum málum. Fimmti bekkur var á fullu í tónsmíði og leyfðu bæjarstjóra að hlýða á verk sem þau höfðu samið í kennslustundinni.  Óhætt er að segja að framtíðin er björt miðað við það sem við fengum að heyra frá nemendunum. Þá voru nemendur úr fjórða bekk í heimilisfræði að baka piparkökur þannig að jólailmur var kominn um allan skóla. Í lokin var sest niður með starfsfólki skólans, og fjölmörg málefni rædd. Eins og í fyrri heimsóknum sköpuðust góðar umræður sem snúa að mörgum samfélagslegum málefnum. Eftir heimsóknina í Nesskóla var haldið yfir í leikskólann Eyravelli og tók þar á móti okkur Sigurlaug Björk Birgisdóttir, leikskólastjóri. Gekk hún með okkur um leikskólann og fengum við innsýn inn í það starf sem fer þar fram. Í leikskólanum eru átta deildir og eru deildirnar nefndar eftir ævintýrum Astrid Lindgren. Um 80 börn frá eins árs aldri til sex ára eru í leikskólanum og um 30 starfsmenn. Þegar við komum var verið að undirbúa hádegisverð og fengum við innsýn inn í undirbúning á hádegisverð fyrir um 100 manns hjá þeim Guðnýju Þorfinnsdóttur, yfirmatráði og Filsan Wais Joensen, aðstoðarmatráði. Í matinn var steiktur fiskur í raspi sem okkur skildist að rynni yfirleitt mjög ljúflega ofan í litla maga.  Á leikskólanum starfa þrír mastersnemar í leikskólafræðum, en þeir hafa búið til námsefnið ,,Töfrar Tónlistarinnar“ og er það hluti af mastersverkefni þeirra. Markmiðið með kennsluefninu er að leggja áherslu á að efla málþroska, hreyfiþroska og sköpunarkraft barna í gegnum tónlist.  

Eftir heimsóknina á Eyravelli, var haldið yfir í þjónustumiðstöðina en þar tók á móti okkur Guðni Geirsson, starfsmaður þjónustumiðstöðvar og Ari Sigursteinsson, bæjarverkstjóri. Nú er jólaundirbúningurinn í fullum gangi og var verið að yfirfara jólaskreytingar sem er verið að setja upp þessa dagana. Yfir 250 jólaskreytingar verða settar upp á ljósastaurana í Fjarðabyggð í ár og á hverju ári þarf að endurnýja og lagfæra hluta af skreytingunum og voru smíðaðar 25 nýjar jólastjörnur í ár í því skyni.  Eins er verið að setja upp jólatré í hverjum kjarna sem svo eru skreytt jólaljósum, en jólaljósin verða tendruð dagana 2. – 6. desember. Hægt er að sjá dagskránna hér.  

Úr þjónustumiðstöðinni var haldið yfir til hafnarinnar, en aðstaða hafnarvarða er sambyggð við þjónustumiðstöðina. Á móti okkar þar tók Sigurbrandur Jakobsson, hafnarvörður. Mikið var um að vera í Norðfjarðarhöfn en þrjú skip komu inn til löndunar þann daginn. Fjarðabyggðarhafnir er næst stærsta höfn landsins, með tæplega þriðjung af öllum vöruútflutningi landsmanna og er Norðfjarðarhöfn jafnan aflahæsta höfn landsins.

  

Frá höfninni var svo haldið í íþróttamiðstöðina, þar tók á móti okkur Sigurjón Egilsson, forstöðumaður Íþróttamiðstöðvar Norðfjarðar, ásamt þeim Goran Nikolic og Saga Zagorkia, en það er gaman að segja frá því að samanlagður starfsaldur þeirra Goran og Sögu er 32 ár. Góð ásókn hefur verið í sundlaugina á Norðfirði, en um 200 gestir koma þangað daglega. Óhætt er að segja að íbúar  séu duglegir að nýta sér aðstöðuna og þegar okkur bar að garði streymdu börn úr grunnskólanum í skólasund. Þeim fannst greinilega gott að hlýja sér í vaðlauginni áður en haldið var út í laug að æfa sundtökin undir stjórn sundkennarans. Stefánslaug, eins og hún er gjarnan kölluð var fyrst opnuð árið 1943. Árið 2016, ákvað bæjarstjórn að framvegis yrði laugin nefnd Stefánslaug til heiðurs Stefáns Þorleifssonar, sem þá varð 100 ára, en hann var fyrsti forstöðumaður sundlaugarinnar og forvígismaður að byggingu hennar. Góð aðstaða er í lauginni, tvær vatnsrennibrautir ásamt tveimur heitum pottum, barnalaug og gufubaði auk þess sem líkamsræktarsalur er á jarðhæð hússins.

Jóhann Ágúst, Hreinn og Jóna Árný

Úr íþróttamiðstöðinni var haldið yfir á Menningarstofu Fjarðabyggðar sem er með aðsetur í Þórsmörk, en þar voru þeir Jóhann Ágúst Jóhannsson, forstöðumaður Menningarstofu og Hreinn J. Stephensen, verkefnastjóri. Verkefni Menningarstofu eru fjölbreytt, hlutverk hennar er að styðja við og efla menningarstarf í Fjarðabyggð. Menningarlíf er grundvallaratriði til að gera samfélag að öflugum stað. Á dögunum stóð svo Menningarstofa fyrir Menningarmóti, en tilgangur mótsins var að gefa íbúum tækifæri til að koma að vinnu við endurnýjun á menningarstefnu Fjarðabyggðar. Góðar umræður sköpuðust á mótinu, og verður unnið með þær frekar í þeirri stefnumótunarvinnu sem framundan er. Haldnir voru tveir fundir, annar í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði og seinni fundurinn var haldinn í Skrúð á Fáskrúðsfirði. Menningarmótið var haldið í samstarfi við Austurbrú.  

Að loknu góðu spjalli við þá Jóhann og Hrein, var haldið yfir til Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA). Þar tóku á móti okkur Pétur Heimisson, framkvæmdarstjóri lækninga, Þórarna Gró Friðjónsdóttir, framkvæmdarstjóri mannauðs, Borghildur Fjóla Kristjánsdóttir, rekstrarstjóri HSA í Neskaupstað og Sigríður Kristinsdóttir, deildarstjóri sjúkrasviðs. Málefni heilbrigðisþjónustunnar voru rædd í þaula s.s. verkefnið að laða til Fjarðabyggðar hæft heilbrigðisstarfsfólk. Húsnæðismál eru ofarlega á baugi hjá starfsfólki HSA og nýlega var fest kaup á tveimur íbúðum í Neskaupstað til að auðvelda mönnun. Þá voru lýðheilsumarkmið stjórnvalda rædd og staða mælikvarðanna á Austurlandi, auk verkefnanna “Gott að eldast” og “Janusarverkefnið” sem margir þekkja. Gott samstarf á milli HSA og Fjarðabyggðar var rætt þegar snjóflóðin féllu síðastliðin vetur, áfalla-teymi sem sett var saman, hefur reynst vel og áframhald er á þeirri vinnu. Í gangi er könnun á vegum samráðhóps um áfallastuðning, tilgangurinn með þeirri könnun er að fylgja eftir þeim stuðningi sem veittur var strax í kjölfarið á snjóflóðunum, og kanna hvort á frekari stuðning sé þörf, nú þegar vetur skellur á. Hægt er að nálgast könnunina hér. 

Að lokum var haldið yfir í Breiðablik, sem eru þjónsutuíbúðir aldraðara. Þar tók á móti okkur Helga Sól Birgisdóttir, forstöðumaður stuðnings- og heimaþjónustu. Á Breiðablik búa 28 íbúar, þar eru 26 íbúðir, níu hjónaíbúðir og 17 einstaklingsíbúðir. Þegar við komum voru íbúarnir að gæða sér á vöfflum og eplaböku. Jóna Árný byrjaði á að kynna sig og fór stuttlega yfir það sem hún hafði verið að gera yfir daginn. Íbúar mættu tilbúnir til leiks með ýmis málefni sem þeir höfðu áhuga á að ræða við bæjarstjórann. Helst voru það málefni sem snúa að viðhaldi og nýtingu á rýmum í Breiðabliki m.t.t. samveru og ýmiskonar aðstöðusköpunar. Bæjarstjóri fékk ýmsar góðar ábendingar og upplýsingar sem munu nýtast í næstu skrefum. Íbúarnir höfðu jafnframt orð á því hversu ánægðir þeir væru með það starfsfólk sem starfa í Breiðablik og augljóst af vöffluilminum að allir lögðust á eitt við að skapa notalega stund þennan daginn.  

Næstu vikur mun Jóna Árný sem tók við sem bæjarstjóri Fjarðabyggðar í vor halda áfram ferð sinni um byggðakjarnana og heimsækja stofnanir sveitarfélagsins og ýmis fyrirtæki sem starfa í samfélaginu okkar. Næst er svo á dagskrá að heimsækja Reyðarfjörð. Áhugasömum er bent á að vera í sambandi við upplýsingafulltrúa Fjarðabyggðar á netfangið haraldur.haraldsson@fjardabyggd.is 

 

Fleiri myndir:
Heimsókn bæjarstjóra til Neskaupstaðar
Annar bekkur Nesskóla
Heimsókn bæjarstjóra til Neskaupstaðar
Jóna Árný heilsar uppá nemendur
Heimsókn bæjarstjóra til Neskaupstaðar
Heimsókn bæjarstjóra til Neskaupstaðar
Heimsókn bæjarstjóra til Neskaupstaðar
Guðnýju Þorfinnsdóttur, Filsan Wais Joensen, Anna Marín og Jóna Árný
Heimsókn bæjarstjóra til Neskaupstaðar
Anna Marín, Jóna Árný og Sigurlaug Björk Birgisdóttir, leiksólastjóri
Heimsókn bæjarstjóra til Neskaupstaðar
Guðni Geirsson strfsmaður þjónustumiðstöðvarinnar og Jóna Ánrý
Heimsókn bæjarstjóra til Neskaupstaðar
Jóna Árný, Sigurbrandur Jakobsson, hafnarvörður og Guðni Geirsson
Heimsókn bæjarstjóra til Neskaupstaðar
Guðni Geirsson, Jóna Árný og Ari Sigursteinsson, bæjarverkstjóri

Frétta og viðburðayfirlit