mobile navigation trigger mobile search trigger
04.07.2017

Hernámsdagurinn 2. júlí 2017

Hernámsdagurinn var haldinn hátíðlegur á Reyðarfirði sl. sunnudag.

Hernámsdagurinn 2. júlí 2017
Andri, Jóhanna og Þórunn sungu lög frá stríðsárunum.

Dagurinn er haldinn til þess að minnast dagsins sem breski herinn gekk á land í Reyðarfirði. Dagurinn var 1. júlí 1940. Hátíðarhöld dagsins voru lágstemmdari en oft áður en engu að síður kom fjöldi gesta á þau.

Stríðsárasafnið opnaði kl. 13, eins og það gerir alla daga vikunnar. Það sem var sérstakt við daginn var að nýtt safnaleiðsagnarkerfi var tekið í notkun. Kerfið er unnið í samstarfi við íslenska fyrirtækið Locatify. Kerfið í formi smáforrits sem inniheldur hljóðskrár, myndir og texta. Gestir safnsins fá afhentan síma með smáforritinu ásamt heyrnartólum og síðan sjá nemar sem eru víðsvegar um safnið um að leiða þá áfram. Ef gestir vilja eiga forritið eða hafa ekki tíma til að fara í gegnum alla leiðsögnina er hægt að sækja það bæði í gegnum AppStore Apple fyrir iPhone og PlayStore Google fyrir Androidsíma. Gestirnir sem prófuðu kerfið á sunnudag lofuðu það mjög og fannst þetta afar góð viðbót við safnið.

Kl. 14 hófst eiginleg dagskrá með söng, en þau Þórunn Clausen, Jóhanna Seljan og Andri Bergmann sungu lög frá stríðsárunum við undirleik Andra. Afar skemmtileg stemning myndaðist við það.

Þegar nokkur lög höfðu verið leikin tók tónlistarfólkið sér hlé og við tók Þóroddur Helgason sem sagði sögur frá stríðsárunum. Voru þær flestar mjög skemmtilegar og gestir hlógu við og við. Þegar sögustundinni lauk tók tónlistarfólkið lagið aftur og við það voru bornar fram tertur sem skreyttar voru með myndum sem tengjast safninu. Tertusneiðunum var hægt að skola niður með gosi eða kaffi.

Það var virkilega ánægjulegt að sjá hversu margir taka þátt í að halda minningu stríðsáranna á lofti en stríðsárin höfðu afar mikið að segja varðandi framþróun íslensks samfélags. Það er hægt að fara að hlakka til hernámsdagsins á næsta ári. Auk þess eru allir hvattir til þess að kíkja á Stríðsárasafnið og prófa nýja leiðsagnarkerfið.

Fleiri myndir:
Hernámsdagurinn 2. júlí 2017
Gestir skoðuðu safnið hátt og lágt með eða án leiðsagnarkerfisins.
Hernámsdagurinn 2. júlí 2017
Þóroddur með sögustund.
Hernámsdagurinn 2. júlí 2017
Gestir skoða safnkostinn.
Hernámsdagurinn 2. júlí 2017
Þórunn lifir sig inn í lög stríðsáranna.
Hernámsdagurinn 2. júlí 2017
Fjöldi fólks var samankominn við dagskrána.

Frétta og viðburðayfirlit