mobile navigation trigger mobile search trigger
15.01.2016

Hljóðkerfaleiga Austurlands tekur við rekstri Egilsbúðar

Bæjarráð Fjarðabyggðar fól bæjarstjóra á fundi 11.janúar, að ganga frá fyrirliggjandi samningi við Hljóðkerfaleigu Austurlands um rekstur Egilsbúðar í Neskaupstað. Samkvæmt samningnum verður reksturinn með nokkuð breyttu sniði frá því sem verið hefur.

 

Hljóðkerfaleiga Austurlands tekur við rekstri Egilsbúðar

Meginbreyting er í stuttu máli sú, að veitingarekstur leggst af í núverandi mynd og verður áhersla framvegis lögð á  tónlistar- og menningarviðburði. Fyrirtækjum, félögum og einstaklingum mun þannig standa salarkynni þessa fornfræga félagsheimilis til boða fyrir skipulagða viðburði af fjölbreyttum toga.

Þá er reglubundnum viðburðum í menningar- og skemmtanalífi Neskaupstaðar áfram tryggður fastur sess í Egilsbúð, þorrablótin, leiksýningar, skólaleikrit, Eistnaflug og Neistaflug svo að dæmi séu nefnd. Þannig mun Tónskólinn í Neskaupstað ásamt leikfélögum, BRJÁN og öðru menningartengdu félagsstarfi hafa greiðan aðgang að aðstöðu í húsinu.

Auglýst var eftir rekstraraðila fyrir Egilsbúð í byrjun desember sl. á grundvelli samningskaupalýsingar, þar sem lögð var áhersla á hlutverk staðarins fyrir menningu og mannlíf í sveitarfélaginu. Daglegur veitingarekstur er undanskilinn þeim verkefnum sem vænst er af nýjum rekstraraðila.

Umsóknarfrestur var til 23. desember sl. og barst umsókn frá einum aðila, Hljóðkerfaleigu Austurlands ehf. Samningafundur fór fram með Guðjóni Birgi Jóhannssyni, forsvarsmanni hljóðkerfaleigunnar þann 6. janúar sl. og sat hann jafnframt kynningar- og samráðsfundi með hagsmunaaðilum.

Fyrirliggjandi samningur við Hljóðkerfaleigu Austurlands um rekstur Egilsbúðar tekur gildi 1. febrúar nk. Samningurinn er til þriggja ára og er með ákvæðum um mögulega tveggja ára framlengingu, til ársins 2021. Uppsagnarfrestur er þrír mánuðir nema til vanefnda komi.

Frétta og viðburðayfirlit