mobile navigation trigger mobile search trigger
16.12.2016

Jólaheimsóknir bæjarstjóra

Sú skemmtilega hefð hefur myndast að bæjarstjóri heimsæki stofnanir sveitarfélagsins á aðventunni. Hér má sjá Pál Björgvin í góðum félagsskap í Grunnskóla Reyðarfjarðar í dag.

Jólaheimsóknir bæjarstjóra

Auk þess sem bæjarstjóri afhendir jólagjöf sveitarfélagsins, veita heimsóknirnar kærkomið tækifæri til að heilsa upp á starfsfólk Fjarðabyggðar og óska öllum gleðilegra jóla.

Hringferðin tekur allt að tvo daga. Meðferðis er jólagjöf þeirra 497 starfsmanna sem starfa á rétt tæplega fjörtíu vinnustöðum sveitarfélagsins.

„Mér finnst ómetanlegt að fá þetta tækifæri til að fara á milli vinnustaða og hitta allt þetta frábæra starfsfólk sem sveitarfélagið býr að," segir Páll Björgvin. „Satt best að segja, þá finnst mér þetta orðinn ómissandi liður í jólaundirbúningnum."

Jafnframt hefur sú hefð myndast að bæjarstjóri afhendi einnig líkamsræktar- og námskeiðsstyrk starfsmanna, enda þótt styrkurinn hafi ekkert með jólagjöf sveitarfélagsins að gera.

Styrkurinn hefur að sögn Páls Björgvins verið að þróast og breytast nokkuð hratt á undanförnum árum, samhliða aukinni áherslu í mannauðsmálum sveitarfélagsins á heilsueflingu og jákvæða hvatningu.

"Hugsunin er nú aðallega sú að minna á styrkinn, sem nýta má til að greiða niður árgjald vegna áhuga- og tómstundamála á sífellt breiðara sviði. Þeim hefur farið hratt fjölgandi sem nýta sér styrkinn, sem er afar jákvæð þróun."

Frétta og viðburðayfirlit