mobile navigation trigger mobile search trigger
31.03.2016

Kynning á frummatsskýrslum

Frummatsskýrslur vegna ofanflóðavarna neðan Nesgils og Bakkagils annars vegar og Urðarbotns og Sniðgils hins vegar voru kynntar á íbúafundi sem fram fór nýlega í Neskaupstað. Um tvo síðustu áfanga er að ræða í ofanflóðavörnum í Norðfirði

Kynning á frummatsskýrslum
Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri, stýrði umræðum að framsögum loknum. Í baksýn eru (f.v.) Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar, Sigrún María Kristinsdóttir og Ólafur Arnarson, starfsmenn Eflu og Hafsteinn Pálsson, Ofanflóðasjóði.

Að kynningunni stóðu Hafsteinn Pálsson, hjá Ofanflóðasjóði ásamt Ólafi Arnarsyni og Sigrúnu Maríu Kristinsdóttur, starfsmönnum Eflu. Þau sátu einnig fyrir svörum að kynningu lokinni ásamt Jóni Birni Hákonarsyni, forseta bæjarstjórnar Fjarðabyggðar. Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri, stýrði umræðum.

Á fundinum kom m.a. fram að ofanflóðavarnir í Neskaupstað taka mið af byggð á C-hættusvæðum, sem eru þau svæði í byggð sem ber að verja samkvæmt hættumati Veðurstofu Íslands.

Frummatsskýrslurnar eru hluti af lögboðnu matsferli vegna umhverfisáhrifa framkvæmda og voru alls 11 umhverfisþættir metnir, þar á meðal gróður, fuglalíf, útivist, fornleifar, náttúruminjar, ásýnd og landslag og skipulag, efnisleg verðmæti og öryggi.

Af þessum ellefu matsþáttum var enginn talinn hafa verulega neikvæð áhrif í för með sér. Tveir þættir voru metnir með talsverð neikvæð áhrif, sjö með engin eða óveruleg áhrif og sitt hvor þátturinn með talsverð jákvæð og verulega jákvæð áhrif.

Mótvægisaðgerðir gera m.a. ráð fyrir að hönnun, útlit og stærð varnarvirkja falli að landslagi og samtengingum á milli útivistarsvæða. Þá verður leitast við að færa umferð vegna framkvæmda upp fyrir byggðina á framkvæmdartíma, svo að dæmi séu nefnd.

Frestur til að gera athugasemdir er til 26. apríl nk. og skulu skriflegar ábendingar og athugasemdir berast Skiplagsstofnun.

Nálgast má báðar frummatsskýrslur ásamt viðaukum hér á vef Fjarðabyggðar

Fleiri myndir:
Kynning á frummatsskýrslum
Hér má sjá samsetta mynd af Norðfirði að framkvæmdum loknum vegna ofanflóðavarna.
Kynning á frummatsskýrslum
Framkvæmdir vegna ofanflóða taka mið af hættumati Veðurstofu Íslands.

Frétta og viðburðayfirlit