mobile navigation trigger mobile search trigger
05.12.2023

Ljósin tendruð á jólatrjánum í Fjarðabyggð

Jólaljósin voru tendruð á jólatrjánum í Fjarðabyggð um nýliðna helgi. Fjölmenni mættu og áttu notalegar stundir saman í aðdraganda aðventunnar. 

Ljósin tendruð á jólatrjánum í Fjarðabyggð
Jólatréið á Norðfirði

Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, flutti ávarp og kveikti á jólaljósunum á Norðfirði að viðstöddu fjölmenni. Að venju skipulagði níundi bekkur Nesskóla viðburðinn með aðstoð foreldrafélagsins. Kynnir var Máni Franz Jóhannsson, nemandi við 9. bekk.  Lúðrasveit Neskaupstaðar spilaði nokkur jólalög og börn úr leikskólanum Eyravöllum sungu  jólalög. Krakkar úr níunda bekk buðu svo gestum uppá piparkökur og heitt kakó. Í lokin komu svo jólasveinar í fylgd slökkviliðs, björgunarsveitarinnar og lögreglu og gáfu börnum mandarínur.

Á Eskifirði sá foreldrafélag leikskólans Dalborg um skipulagningu. Fyrir tendrunina var jólaball í Valhöll fyrir yngstu börnin, leikskólabörn sungu nokkur lög og 9. bekkur Eskifjarðaskóla var með kaffisölu. Að því loknu var gengið útá Eskjutún og mættu þar jólasveinar á slökkviliðsbíl og gáfu börnunum mandarínur og piparkökur. Spiluð voru jólalög og kveikt var á jólaljósunum á jólatrénu.

Á Reyðarfirði sá foreldrafélag leikskólans Lyngholts um skipulagningu. Ragnar Sigurðsson, bæjarfulltrúi flutti ávarp og kveikti á jólaljósunum. Karitas Harpa Davíðsdóttir söng við undirspil Arons Leví Beck. Boðið var uppá piparkökur og kakó. Í lokin komu svo jólasveinar í fylgd slökkviliðsins og björgunarsveitarinnar Ársól og gáfu börnunum mandarínur og dönsuðu í kringum jólatréð.

Á Fáskrúðsfirði sá foreldrafélag leikskólans Kærabæjar um skipulagningu. Berglindi Ósk Agnarsdóttir og Dagný Elísdóttir fluttu stutt ávarp og sáu um tónlistaratriði. Í boði var heitt kakó og piparkökur. Jólasveinar komu í fylgd slökkviliðsins og gáfu börnunum mandarínur. 

Á Stöðvarfirði var ansi jólalegt þegar kveikt var á jólatrénu sem skartar sínu fegursta á miðjum Balanum. Boðið var upp á heitt kakó, jólalögin sungin og auðvitað kíktu nokkrir jóalsveinar í heimsókn og dansað var í kringum jólatréið.

Í Mjóafirði komu íbúar saman í Sólbrekku og áttu notalega stund saman og gerðu aðventuskreytingar. Að því búnu var svo farið út og jólalög sungin áður en talið var niður og kveikt á jólaljósunum.

Á morgun miðvikudag 6. desember, verða svo jólaljósin á jólatrénu á Breiðdalsvík tendruð. 

Fjarðabyggð sendir sínar bestu jólakveðjur og þakkar þeim fjölmörgu sem komu að undirbúningi kærlega fyrir að gera stundina sem ánægjulegasta. 

Fleiri myndir:
Ljósin tendruð á jólatrjánum í Fjarðabyggð
Jólatréið á Eskifirði
Ljósin tendruð á jólatrjánum í Fjarðabyggð
Jólatréið á Reyðarfirði
Ljósin tendruð á jólatrjánum í Fjarðabyggð
Jólatréið í Mjóafirði
Ljósin tendruð á jólatrjánum í Fjarðabyggð
Börn að dansa í kringum jólatréið í Fáskrúðsfirði
Ljósin tendruð á jólatrjánum í Fjarðabyggð
Jólasveinninn með börnum á Fáskrúðsfirði

Frétta og viðburðayfirlit