mobile navigation trigger mobile search trigger
24.09.2019

Ljósleiðaratenging væntanleg í Mjóafjörð

Verktakar vinna nú hörðum höndum að því að leggja ljósleiðara til Mjóafjarðar. Unnið er að verkinu af kappi þessa daganaþannig að íbúar geti notið tengingar sem fyrst.

Ljósleiðaratenging væntanleg í Mjóafjörð
Unnið hefur verið að kappi við lagningu ljósleiðara til Mjóafjarðar

Ljósleiðarinn er lagður frá Seyðisfirði um Brekkugjá og niður í Brekkuþorp. Fjarskiptasamband við Mjóafjörð hefur verið ótryggt, sér í lagi yfir vetrartímann. Íbúar hafa haft tengingu í gegnum örbylgjusamband um Heiðarhnjúk sem hefur verið ótryggt, sér í lagi að vetri til þegar ísingar og illviðra hefur gætt en sú tenging við umheiminn hefur jafnframt verið takmörkuð hvað varðar afköst og gæði.

Verkefnið er unnið af Neyðarlínunni í samstarfi við Mílu en Fjarðabyggð ásamt fleiri aðilum hafa lagt fjármagn til þessa þarfa verkefnis auk Fjarskiptasjóðs. Með tengingu ljósleiðara við Mjóafjörð er stigið mikilvægt skref í öryggismálum staðarins sem sætir einangrun að vetri til en jafnframt er íbúum tryggð mun betri gæði og þjónusta sem nauðsynleg er á tímum aukinna krafna um bættar fjarskiptatengingar.

Verkefnið er hluti af stærri áfanga um hringtengingu Austfjarða þar sem markmiðið er að Neskaupstaður og Eskifjörður verið hringtengdir ásamt Mjóafirði.  Ljósleiðaratengingin nær ekki til Dalatanga en staðsetning hans er það langt úr leið að leita verður sérstakra lausna í fjarskiptamálum hans.

Frétta og viðburðayfirlit