mobile navigation trigger mobile search trigger
22.10.2015

Menningarsnautt eru dautt samfélag

Menning, þýðing hennar og staða innan Fjarðabyggðar, var meginefni opins fundar sem fram fór í Tónlistarmiðstöð Austurlands í gærkvöldi. Að fundinum stóð starfshópur sem skipaður hefur verið um mótun og framsetningu menningarstefnu fyrir Fjarðabyggð.

Menningarsnautt eru dautt samfélag
Svipmynd úr hópastarfinu í gærkvöldi.

Fundurinn hófst á stuttum inngangserindum þar sem Dýrunn Pála Skaftadóttir, formaður starfshópsins, kynnti starf hópsins fram að þessu og Jón Hilmar Kárason, tónlistarmaður, velti fyrir sér spurningunni: menning – til hvers?

Að því loknu leiddi Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, verkefnastjóri atvinnu- og þróunarmála, vinnustofu þar sem þátttakendur fjölluðu um menningu út frá ólíkum sjónarhólum. Auk almennra spurninga um þýðingu menningar á einstaklingsbundnum eða samfélagslegum forsendum, var sjónum beint að einkennum menningarstarfs í Fjarðabyggð, fjölda og dreifingu menningartengdra viðburða, forgangsröðun, fjármögnun og þátttöku í menningarstarfi, svo að það helsta sé nefnt.

Meginniðurstöðu hópastarfsins má orða sem svo að menningarsnautt samfélag sé dautt samfélag. Margar athyglisverðar hugmyndir og ábendingar komu fram, sem unnið verður úr á næstu vikum, en stefnt er að því að hópurinn skili tillögum af sér til menningar- og safnanefndar í nóvember nk.

Í starfshópnum eiga sæti, ásamt Dýrunni Pálu, Björgvin Valur Guðmundsson, Jón Hilmar Kárason, Þórunn Gréta Sigurðardóttir, Anna Bjarnadóttir og Berglind Ósk Agnarsdóttir.

Skipaðir samstarfsaðilar verkefnahópsins eru Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, verkefnastjóri atvinnu- og þróunarmála, Helga Guðrún Jónasdóttir, markaðs- og upplýsingafulltrúi og Signý Ormarsdóttir, Austurbrú. Aðstoðarmaður hópsins er Pétur Sörensson, forstöðumaður Safnastofnunar fjarðabyggðar.

Frétta og viðburðayfirlit