mobile navigation trigger mobile search trigger
30.06.2017

Mikilvægum áfanga náð í heilbrigðismálum á Austurlandi

Framkvæmdir við Norðfjarðarflugvöll eru á lokametrunum, en verið er að ljúka við að leggja bundið slitlag á völlinn.

Mikilvægum áfanga náð í heilbrigðismálum á Austurlandi
Verið er að ljúka við vinnuna.

Verður það lokahnykkurinn á einu þarfasta samfélagsverkefni síðustu ára í fjórðungnum. Verkefnið sýnir hvað samfélagið getur gert ef aðilar taka sig saman og vinna að settu markmiði.

Eins og margir muna var samningur um endurbætur á flugvellinum undirritaður þann 22. ágúst á síðasta ári. Sveitarfélagið hafði frumkvæði að uppleggi verkefnisins og var samningurinn gerður í kjölfar áskorana sem forsvarsmenn sveitarfélagsins höfðu borið upp við ríkisvaldið sem er eigandi flugvallarins. Að sögn Páls Björgvins Guðmundssonar bæjarstjóra var ástæða þessa verkefnis sú, að flugvöllurinn var hættur að geta sinnt því mikilvæga öryggishlutverki sem hann gegnir fyrir Umdæmissjúkrahús Austurlands. Flugvöllurinn var nánast orðinn ónothæfur um tíma og áttu sjúkraflugvélar erfitt með að athafna sig sem varð til þess að meirihluti þeirra sjúkrafluga sem voru áætluð, þurftu að fara frá öðrum flugvöllum með tilheyrandi óþægindum fyrir sjúklinga.

Samkvæmt samningnum kosta framkvæmdirnar 156 milljónir kr. og greiðir sveitarfélagið 76 milljónir af því en íslenska ríkið það sem eftir stendur. Samtakamáttur samfélagsins sýndi sig í því að 2/3 af upphæðinni sem sveitarfélagið reiddi fram komu frá Samvinnufélagi útgerðarmanna í Neskaupstað (SÚN) og Síldarvinnslunni hf. Mikilvægi fyrirtækja eins og þeirra fyrir samfélagið er ótvírætt.

Í samningum var ekki kveðið á um svokallað flughlað en eftir að bent hafði verið á nauðsyn þess var ráðist í fjármögnun og framkvæmd á því. Flughlaðið kostar 15 millj. kr, 5 millj. kr. höfðu orðið eftir í verkinu sjálfu, SÚN og sveitarfélagið reiða fram aðrar 5 millj. kr og verktakinn Héraðsverk ehf. styrkti þetta mikilvæga samfélagsverkefni með 5 millj.  kr framlagi. Því er ljóst að flughlaðið mun einnig verða að veruleika þökk sé samhentu framtaki þessa aðila.

Eins og sjá má eru margir aðilar sem hafa komið að því að þetta mikla framfaramál sé að komast í höfn. Þakka ber fyrir þátt fyrirtækja eins og SÚN, Síldarvinnslunnar hf, og Héraðsverks ehf. Án þeirra er ekki víst að þetta mikla hagsmunamál hefði náð fram að ganga.

Fleiri myndir:
Mikilvægum áfanga náð í heilbrigðismálum á Austurlandi
Frá undirritun samkomulagsins: Ólöf Nordal, þáverandi innanríkisráðherra og Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri. Fyrir aftan þau standa Guðmundur Rafnkell Gíslason, SÚN, Valdimar O. Hermannsson, bæjarráðsmaður, Jón Björn Hakonarson, forseti bæjarstjórnar, Eydís Ásbjörnsdóttir, bæjarráðsmaður og Gunnþór Ingvason, Síldarvinnslunni.

Frétta og viðburðayfirlit