Miðvikudagskvöldið 23. apríl sóttu ríflega 50 ungmenni sameiginlega opnun í Oddskarði og lokuðu skíðavertíðinni með frábærri kvöldstund. Rútur voru í boði og hægt var að leigja búnað í fjallinu fyrir þau sem vildu. Þó var einnig í boði að hafa það notalegt, spila og spjalla í skíðaskálanum fyrir þau sem ekki vildu fara í fjallið.
Nóg um að vera í félagsmiðstöðvum Fjarðabyggðar

Opnunin heppnaðist með eindæmum vel. Það sem þótti mega betur fara var lengd kvöldsins – þau hefðu viljað vera miklu lengur.
2. maí var farið með 49 ungmenni til Reykjavíkur á SamFestinginn svokallaða. Lagt var af stað eldsnemma um morguninn, fyrstu farþegar voru komnir um borð í rútuna á Norðfirði klukkan 06:00 og héldu af stað að sækja fleiri á næstu fjörðum. Hópurinn gisti í Garðaskóla, í Garðabæ og skemmti sér konunglega um helgina.
Um kvöldið fór SamFestings ballið haldið en það má með sanni segja að það sé langstærsta unglingaball landsins, ef ekki heimsins. Þangað komu um 4500 ungmenni. Þar var sungið, hoppað og dansað undir tónlist helsta tónlistarfólks Íslands um þessar mundir. Alls tóku 121 félagsmiðstöð þátt og 420 starfsmenn komu að skipulagi og gæslu til að tryggja öllum örugga og góða upplifun.
Laugardaginn 3. maí fór fram Söngkeppni Samfés. Keppnin fór fram á stóra sviðinu í Laugardalshöll – og var send út í beinni útsendingu á RÚV! Þetta er stórt tækifæri fyrir ungt tónlistarfólk til að upplifa alvöru keppni með faglegum búnaði, förðun, hljóðprufum og ljósum – og það skilaði sér svo sannarlega í ár.
Fjarðabyggð er stolt af okkar flytjanda í ár en Blær Ágúst Gunnars frá félagsmiðstöðinni Atom í Neskaupsstað stóð sig með stakri prýði. Við óskum honum og öllum þátttakendum til hamingju með frábæra keppni og Samfés fyrir frábæra helgi!