mobile navigation trigger mobile search trigger
21.11.2019

Ný fræðslu- og frístundastefna Fjarðabyggðar

Ný fræðslu- og frístundastefna Fjarðabyggðar og áherslur til þriggja ára var samþykkt af bæjarstjórn Fjarðabyggðar í júní 2019. Í vikunni Hefur bæklingum, með stefnunni og áherslunum, verið dreift á öll heimili í Fjarðabyggð.

Ný fræðslu- og frístundastefna Fjarðabyggðar

Í starfsáætlun Fjarðabyggðar sem samþykkt var í bæjarstjórn Fjarðabyggðar 29. nóvember 2018 var ákveðið að endurskoða fræðslu- og frístundastefnu Fjarðabyggðar á fyrri hluta ársins 2019. Ábyrgðaraðilar fyrir endurskoðuninni voru fræðslunefnd og íþrótta- og tómstundanefnd. Ákveðið var að skipa starfshóp sem hefði víða skírskotun í samfélaginu,  samið var erindisbréf fyrir hann og fræðslustjóri og íþrótta- og tómstundafulltrúi skipaðir starfsmenn hans.

Starfshópurinn skilaði af sér á tilskyldum tíma og nefndir, bæjarráð og bæjarstjórn samþykktu stefnuna á fundum sínum í júní 2019. Ákveðið var í fræðslu- og íþrótta- og tómstundanefnd að láta prenta bækling á íslensku og dreifa á hvert heimili í Fjarðabyggð og jafnframt var ákveðið að þýða bæklingana á ensku og pólsku og hafa þá aðgengilega á vef Fjarðabyggðar. Hafsteinn Hafsteinsson myndskreytti bæklingana,  fyrirtækið Gjallarhorn sá um umbrot þeirra, prentun annaðist Héraðsprent og þýðingu var í höndum fyrirtækisins Lingua.  Fyrrnefndir aðilar unnu gríðarlega metnaðarfullt starf og segja má að þeir hafi sett rúsínuna í pylsuendann.

Vefsvæði er á heimasíðu Fjarðabyggðar þar sem stefnan og áherslurnar eru aðgengilegar á íslensku og ensku. Einnig er unnið við að þýða stefnuna yfir á pólsku og mun sú útgáfa verða aðgengileg innan tíðar. Á vefsvæðinu eru einnig samantektir úr hugmyndavinnu ásamt erindisbréfi og lýsingu á ákvörðunum og vinnuferli í tengslum við endurskoðunina. Vefsvæðið má nálgast með því að smella hér.

Í næstu viku verða haldnir kynningarfundir um stefnuna og er fólk hvatt til að mæta. Kynningarfundirnir verða sem hér segir:

Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar mánudaginn 25. nóvember kl. 20:00 – 21:00

Eskifjarðarskóli þriðjudaginn 26. nóvember kl. 20:00 – 21:00

Fjarðabyggð óskar íbúum til hamingju með nýju stefnuna

Frétta og viðburðayfirlit