mobile navigation trigger mobile search trigger
22.09.2015

Ofanflóðavarnir í Norðfirði

Hafinn er undirbúningur næstu áfanga vegna ofanflóðavarna í Norðfirði. Fyrirhugaðar eru tvær aðskildar framkvæmdir annars vegar undir Nesgili og Bakkagili og hins vegar Urðarbotni og Sniðgili. Drög að tillögum að matsáætlun umhverfisáhrifa hafa verið lögð fram til kynningar og rennur frestur út til að skila inn athugasemdum 7. október nk.

Ofanflóðavarnir í Norðfirði
Snjóflóðavarnargarðar í Norðfirði.

Fjarðabyggð hefur falið verkfræðistofunni EFLU að hafa umsjón með mati á umhverfisáhrifum fyrir báðar framkvæmdirnar. Matið er unnið samkvæmt lögum nr. 106/2000 og reglugerð nr. 660/2015, en fyrirhugaðar framkvæmdir eru matsskyldar samkvæmt tölulið 2.01 í 1. viðauka laganna, vegna þess að raskað svæði vegna efnistöku og frágangs framkvæmdsvæðanna er talið geta farið yfir 50.000 m2 og rúmmál efnis yfir 150.000 m3.

Mati á umhverfisáhrifum framkvæmdanna er ætlað að kanna nánar umhverfisáhrif varnarvirkjanna og leggja mat á kosti um hönnun og útfærslur þeirra. Mat á umhverfisáhrifum beggja varnarvirkjanna verða unnin samhliða.

Drög að tillögum að matsáætlunum eru birt til kynningar hér á vef Fjarðabyggðar og á vef EFLU verkfræðistofu, www.efla.is, frá 23. september til og með 7. október 2015. Þá liggja einnig frammi útprentuð eintök af drögunum í þjónustugáttum bókasafna og afgreiðslu bæjarskrifstofu, Hafnargötu 2, Reyðarfirði.

Allir hafa rétt til að kynna sér drögin að tillögunum og koma með athugasemdir, en að auglýsingatíma loknum verða drögin, ásamt þeim athugasemdum sem berast, send Skipulagsstofnun til umfjöllunar. Athugasemdafrestur rennur út 7. október nk.

Við ábendingum og athugasemdum tekur Ólafur Árnason á netfanginu olafur.arnason@efla.is eða með pósti á: EFLA, verkfræðistofa, Vt. Ólafur Árnason, Höfðabakka 9, 110 Reykjavík. Merkja skal umslagið „Ofanflóðavarnir á Norðfirði - mat á umhverfisáhrifum”.

Ofanflóðavarnir á Norðfirði_Matsáætlun_Nesgil og Bakkagil.pdf

Ofanflóðavarnir á Norðfirði_Matsáætlun_Urðarbotn og Sniðgil.pdf

Frétta og viðburðayfirlit