mobile navigation trigger mobile search trigger
17.06.2021

Samstarfssamningur Fjarðabyggðar og Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Breiðdalsvík

Í dag var ritað undir samstarfssamning Fjarðabyggðar og Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Breiðdalsvík. Undirritunin fór fram í Breiðdalssetri en þar var opun Rannsóknarsetursins fagnað.

Samstarfssamningur Fjarðabyggðar og Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Breiðdalsvík
Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar og Tobias Weisenberger, forstöðumaður, rita undir samkomulagið í Breiðdalssetri í dag

Meginmarkmið samstarfssamningsins er að efla þekkingar- og rannsóknarstarf í Fjarðabyggð og á öllu Austurlandi, og festa Rannsóknarsetur HÍ á Breiðdalsvík í sessi. Alls leggur Fjarðabyggð setrinu til 10 milljónir króna í styrk á árunum 2022, 2023 og 2024 og leigir auk þess húsnæði í Breiðdalssetri undir starfsemi þess.

Rannsóknarsetrið byggir á grunni þeirrar vinnu sem unnin hefur verið í Breiðdalssetri undanfarin ár og er starfað í nánu samstarfi við Náttúrfræðistofnun Íslands. Jarðvísindi og málvísindi eru megináherslan í starfsemi setursins og gert er ráð fyrir að helstu verkefni lúti að rannsóknum og miðlun rannsóknarniðurstaðna, sem og kennslu og leiðbeiningu framhaldsnema í jarðvísindum.

Við setrið starfa tveir fræðimenn á sviði jarðvísinda, þau Tobias B. Weisenberger forstöðumaður og María Helga Guðmundsdóttir verkefnastjóri, en auk þeirra starfar Arna Silja Jóhannsdóttir með þeim í sumar.

Frétta og viðburðayfirlit