mobile navigation trigger mobile search trigger
30.04.2016

Skólabúðir á Stöðvarfirði

Boðið verður upp á sjö mismunandi smiðjur í skólabúðum sem Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði hefur skipulagt fyrir nemendur í grunnskólum Fjarðabyggðar.

Skólabúðir á Stöðvarfirði
Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði.

Skólabúðirnar fara fram dagana 2. til 4. maí nk. og eru þær ætlaðar öllum nemendum í 7. bekk, sem eru 64 talsins.

Boðið verður upp á sjö mismunandi smiðjur og má þar nefna sem dæmi raftónlistasmiðju, grafík og bókband, graff, smíðar og fleira. Kennarar í smiðjunum koma bæði frá Íslandi og erlendis frá, og eru það allt toppfólk í sínu fagi.

Stefnt er að því að skólabúðirnar, með þeim fjölbreyttu og skapandi námsmöguleikum sem í þeim felst, verði hluti af námsframboði grunnskóla Fjarðabyggðar. Að sögn Rósu Valtingojer, hjá hjá Sköpunarmiðstöðinni, mætti jafnvel þróa búðirnar með þátttöku skóla af öllu Austurlandi fyrir augum. 

„Við teljum afar mikilvægt að efla fjölbreytta menntun á svæðinu og þar með auka möguleika íbúanna á því að sækja sér þekkingu í sinni heimabyggð. Samhliða því eykst aðdráttarafl til búsetu á svæðinu,“ segir Rósa.

Verkefnið er styrkt af Sprotasjóði, Fjarðabyggð og Brothættum byggðum, uppbyggingarverkefni Byggðastofnunar.

Frétta og viðburðayfirlit